"Veldurat sá er varar," segir Sigmundur.

"Þá er að gæta ráðsins," segir Gunnar, "en mjög munt þú verða reyndur og
gakk með mér jafnan og hlít mínum ráðum."

Síðan voru þeir í fylgd með Gunnari.

Hallgerður var vel til Sigmundar og þar kom að þar gerðist svo mikill ákafi
að hún bar fé á hann og þjónaði honum eigi verr en bónda sínum. Og lögðu
margir það til orðs og þóttust eigi vita hvað undir mundi búa.

Hallgerður mælti við Gunnar: "Eigi er gott við að una við það hundrað
silfurs er þú tókst fyrir Brynjólf frænda minn enda skal eg hefna hans láta
ef eg má," segir hún.

Gunnar kvaðst ekki vilja skipta orðum við hana og gekk í braut. Hann fann
Kolskegg og mælti til hans: "Far þú og finn Njál og seg honum að Þórður sé
var um sig þó að sættir séu því að mér þykir eigi trúlega vera."

Hann reið og sagði Njáli en Njáll sagði Þórði. Kolskeggur reið heim og
þakkaði Njáll þeim trúleika sína.

Það var einu hverju sinni að þeir sátu úti, Njáll og Þórður. Þar var vanur
að ganga hafur um túnið og skyldi engi hann í braut reka.

Þórður mælti: "Undarlega bregður nú við."

"Hvað sérð þú þess er þér þykir með undarlegu móti vera?" segir Njáll.

"Mér þykir hafurinn liggja hér í dælinni og er alblóðugur allur."

Njáll kvað þar vera eigi hafur og ekki annað.

"Hvað er það þá?" segir Þórður.

"Þú munt vera maður feigur," segir Njáll, "og munt þú séð hafa fylgju þína
og ver þú var um þig."

"Ekki mun mér það stoða," segir Þórður, "ef mér er það ætlað."

Hallgerður kom að máli við Þráin Sigfússon og mælti: "Mágur þætti mér þú
vera ef þú dræpir Þórð leysingjason."

"Eigi mun eg það gera," segir hann, "því að þá mun eg hafa reiði Gunnars
frænda míns. Mun og þar stórt á liggja því að vígs þess mun brátt hefnt
verða."