15. kafli
Þjóstólfur hafði barið húskarl Höskulds og rak
Höskuldur hann í braut. Hann
tók hest sinn og vopn sín og mælti við
Höskuld: "Nú mun eg á braut fara og
koma aldrei aftur."
"Allir munu
því fagna," segir Höskuldur.
Þjóstólfur reið til þess er hann kom til
Varmalækjar. Hann hafði þar góðar
viðtökur af Hallgerði en eigi illar af
Glúmi. Hann sagði Hallgerði að faðir
hennar hefði hann á braut rekið og bað
hana ásjá. Hún svaraði honum því að
hún kveðst honum engu mega heita um
þarvist hans fyrr en hún fyndi Glúm.
"Fer vel með ykkur?" segir
hann.
"Vel er um ástir okkrar," segir hún.
Síðan gekk hún til
máls við Glúm og lagði hendur upp um háls honum og mælti:
"Skalt þú veita
mér bæn þá er eg mun biðja þig?"
"Veita mun eg þér ef þér er sæmd í,"
segir hann, "eða hvers vilt þú biðja?"
Hún mælti: "Þjóstólfur er rekinn
í braut vestan þaðan og vildi eg að þú
leyfðir honum að vera hér. En eg vil
þó eigi þvert taka ef þér er lítið um."
Glúmur mælti: "Nú er þér fer
svo vel skal eg veita þér þetta en seg að hann
skal í brautu verða ef hann
tekur nokkuð illt til."
Hún gengur til Þjóstólfs og segir
honum.
Hann svaraði: "Nú fer þér enn vel sem von var að."
Síðan
var hann þar og sat á sér um hríð en þar kom að hann þótti þar öllu
spilla.
Tók hann þá að hlífast við engan mann nema við Hallgerði en hún
veitti
honum aldrei eftirmæli þá er hann átti við aðra. Þórarinn bróðir
Glúms
taldi á við hann er hann lét Þjóstólf þar vera og kvað illa gefast
mundu og
fara enn sem fyrr ef hann væri þar. Glúmur svaraði vel og brá þó á
sitt
ráð.