2. kafli
Það var einu hverju sinni að þeir bræður riðu til alþingis, Höskuldur og
Hrútur. Þar var fjölmenni mikið.
Þá ræddi Höskuldur við Hrút: "Það vildi eg bróðir að þú bættir ráð þitt og
bæðir þér konu."
Hrútur svarar: "Lengi hefir mér það í hug verið og hefir mér þó tvennt um
sýnst. En nú vil eg gera að þínu skapi eða hvar skulum við á leita?"
Höskuldur svaraði: "Hér eru nú höfðingjar margir á þingi og er gott um að
velja en þó hefi eg í einum stað á stofnað fyrir þína hönd. Kona heitir
Unnur og er dóttir Marðar gígju, hins vitrasta manns, og er hann hér á þingi
og svo dóttir hans og mátt þú nú sjá hana ef þú vilt."
Og annan dag eftir er menn gengu til lögréttu sáu þeir konur úti hjá
Rangæingabúð, vel búnar.
Þá mælti Höskuldur við Hrút: "Þar er hún nú Unnur er eg sagði þér frá eða
hversu líst þér á hana?"
"Vel," sagði hann, "en eigi veit eg hvort við eigum heill saman."
Síðan ganga þeir til lögréttu. Mörður gígja mælti lögskil að vanda sínum og
gekk heim til búðar sinnar. Höskuldur stóð upp og Hrútur og gengu til búðar
Marðar og inn í búðina. Mörður sat í innanverðri búðinni. Þeir kvöddu hann.
Hann stóð upp í mót þeim og tók í hönd Höskuldi og settist hann niður hjá
honum en Hrútur sat hið næsta Höskuldi.
Síðan töluðu þeir margt og komu þar niður ræður Höskulds að "eg mæli til
kaupa við þig. Vill Hrútur gerast mágur þinn og kaupa dóttur þína og skal eg
eigi mitt til spara."
Mörður svaraði: "Veit eg að þú ert höfðingi mikill en bróðir þinn er mér
ókunnigur."