Þorkell kvað hann eigi vita mundu að gerr þó hann segði honum "og bið Gunnar út ganga."


Hann kvað Gunnar kominn í rekkju. Hann biður hann segja að maður vill hitta hann.


Húskarl gerir svo, gengur inn og segir Gunnari að maður vill hitta hann. Gunnar spurði hver hann væri.


Húskarl kvaðst það eigi vita "en mikill er hann vexti."


Gunnar mælti: "Far þú og seg honum að hann sé hér í nótt."


Húskarl fer og gerir sem Gunnar bauð en Þorkell kvaðst eigi vilja þiggja boð af þrælum heldur að bónda sjálfum.


Húskarl segir að það væri sannlegra "en eigi hefir Gunnar vana til þess að standa upp um nætur. Gerðu annaðhvort," sagði húskarl, "að þú far á brott eða gakk inn og ver hér í nótt."


"Gerðu annaðhvort," segir Þorkell, "að þú rek erindi duganda eða eg legg sverðshjöltin á nasir þér."


Húskarl hleypur inn og rekur aftur hurðina. Gunnar spurði hví hann færi svo óðlega.


Hann sagðist eigi vildu tala fleira við hinn komna mann "því að hann er mjög hastorður."


Gunnar reis þá upp og gekk út í túnið. Hann var í skyrtu og línbrókum, möttul yfir sér og svarta skó á fótum, sverð í hendi. Hann fagnar vel Þorkatli og biður hann inn ganga. Hann segir að þeir voru fleiri saman.


Gunnar gengur út í túnið en Þorkell þrífur í hurðarhringinn og rekur aftur hurðina. Þeir ganga þá á bak húsunum. Gunnar heilsar þeim.


Þorkell sagði: "Setjumst vér niður því að vér eigum mart að tala við þig Gunnar."


Þeir gera svo, setjast niður á tvær hendur honum og svo nær að þeir sátu á skikkjunni er Gunnar hafði yfir sér.