Nú líður nóttin af hendi og þegar um morguninn ríður Þórir og þeir fóstrar í Norðurtungu. Er þar fjöldi manna kominn og var sveininum gefið seturúm en Þórir reikar á gólfinu.


Það getur Þorvaldur að líta er hann situr á pallinum og þeir Arngrímur og töluðu sín á milli.


"Hver er sjá maður er reikar um gólfið?" segir Þorvaldur.


Arngrímur svarar: "Hann er barnfóstri minn."


"Já," segir Þorvaldur, "hví skal honum eigi rúm gefast?"


Arngrímur kvað hann eigi varða.


"Eigi skal svo vera," sagði Þorvaldur og lætur kalla hann til sín og gefur honum rúm að sitja hjá sér.


Spyrjast síðan almæltra tíðinda.


Hann svarar Þórir: "Raun var þetta er Blund-Ketill rændi mig."


Þorvaldur spurði: "Er sæst á?"


"Fjarri fer um það," segir Þórir.


"Hví gegnir það Arngrímur," sagði Þorvaldur, "að þér höfðingjar látið þá skömm fram fara?"


Arngrímur svarar: "Lýgur hann mestan hlut frá og er alllítið til haft."


"Var það þó satt að hann hafði heyið?" segir Þorvaldur.


"Hafði hann víst," segir Arngrímur.


"Bær er hver að ráða sínu," sagði Þorvaldur, "og kemur honum fyrir lítið vinfengi við þig ef hann skal þó undir fótum troðinn."


Þórir mælti: "Allvel líst mér á þig Þorvaldur og svo segir mér hugur um að þú munir nokkuð leiðrétta mitt mál."


Þorvaldur mælti: "Eg hefi lítið traust undir mér."


Þórir mælti: "Eg vil gefa þér fé mitt hálft til þess að þú réttir málið og hafir annaðhvort sektir eða sjálfdæmi svo að óvinir mínir sitji eigi yfir mínu."


Arngrímur mælti: "Ger eigi þetta Þorvaldur því að eigi er góðum dreng að duga þar sem hann er en þú átt við þann um er bæði er vitur og vel að sér og að öllu vinsæll."


"Sé eg," segir Þorvaldur, "að þér leikur öfund á ef eg tek við fé hans og anntu mér þess eigi."


Þórir mælti: "Svo er að að hyggja Þorvaldur að fé mitt mun reynast frítt og aðrir menn vita að mér er eigi fé goldið víða fyrir mitt eigin."