Blund-Ketill svarar: "Eg skal fá til húðir og búa um svo að vel sé."
Þórir svarar: "Eigi vil eg spark annarra manna í húsum mínum."
Blund-Ketill svarar: "Þá skal vera hjá oss í vetur og mun eg varðveita."
"Veit eg gjálgrun þína," segir Þórir, "og vil eg engu kaupa við þig."
Blund-Ketill mælti: "Þá mun fara verr og munum vér allt að einu hafa heyið þó að þú bannir en leggja verð í staðinn og njóta þess að vér erum fleiri."
Þá þagnar Þórir og gerir eigi gott í skapi. Blund-Ketill lætur taka reip og binda heyið. Eftir það hefja þeir upp klyfjar og bera í brott heyið en ætla vel til alls fjár.
6. kafli
Nú skal segja frá hvað Þórir hafðist að. Hann býr heiman ferð sína og Helgi fóstri hans með honum. Þeir ríða í Norðurtungu og var þar tekið við þeim afar vel. Spurði Arngrímur tíðinda.
Þórir svarar: "Ekki hefi eg nú nýlegra spurt en ránið."
"Hvað var ránið?" sagði Arngrímur.
Þórir svarar: "Blund-Ketill hefir rænt mig öllum heyjum svo að eigi ætla eg forkast eftir nautum í köldu veðri."
"Er svo Helgi?" segir Arngrímur.
"Engu gegnir það," segir Helgi, "fór Blund-Ketill vel með sínu máli."
Sagði Helgi þá hversu farið hafði með þeim.
Þá sagði Arngrímur: "Það var líkara. Betur er það hey komið að hann hefir en hitt er fúnar fyrir þér."
Þórir svarar: "Illu heilli bauð eg þér barnfóstur. Skal oss aldrei það illbýli gert að oss sé hér tilgangur að heldur og að vor hlutur sé réttur og eru slíkt firn mikil."
Arngrímur svarar: "Það var þegar ófyrirsynju því að eg ætla þar vondum manni að duga sem þú ert."
Þórir svarar: "Eigi er eg orðsjúkur maður en illa uni eg að þú launar svo mína gerð eða það þó að menn ræni mig því að eigi er þetta síður frá þér tekið."