Þórgunna vildi engum mat bergja um kveldið. En um morguninn kom Þóroddur bóndi til hennar og spurði að um sótt hennar hvern enda hún hyggur að eiga mundi.
Hún kvaðst það ætla að hún mundi eigi taka fleiri sóttir.
Síðan mælti hún: "Þig kalla eg vitrastan mann hér á bæ," segir hún. "Vil eg því þér segja mína tilskipan hverja eg vil á hafa um fé það er eg á eftir og um sjálfa mig því að það mun svo fara sem eg segi," sagði hún, "þó að yður þyki fátt merkilegt um mig að eg get lítt duga munu af því að bregða sem eg segi fyrir. Hefir þetta þann veg upp hafist að eg get eigi til mjórra enda þoka munu ef eigi eru rammar skorður við reistar."
Þóroddur svarar: "Eigi þykir mér lítil von að þú verðir nærgæt um þetta. Vil eg og því heita þér," sagði hann, "að bregða eigi af þínum ráðum."
Þórgunna mælti: "Það er skipan mín að eg vil láta færa mig í Skálaholt, ef eg andast úr þessi sótt, því að mér segir svo hugur um að sá staður muni nokkura hríð verða mest dýrkaður á þessu landi. Veit eg og," segir hún, "að þar munu nú vera kennimenn að veita mér yfirsöngva. Vil eg þess biðja þig að þú látir mig þangað flytja. Skaltu þar fyrir hafa af minni eign svo að þig skaði eigi í. En af óskiptri minni eigu skal Þuríður hafa skarlatsskikkju þá er eg á. Geri eg það til þess að hún skuli létta á leggja þótt eg sjái fyrir öðru mínu fé slíkt er mér líkar. En eg vil að þú takir í kostnað þann er þú hefir fyrir mér það er þú vilt eða henni líkar af því er ég læt til. Gullhring á eg og hann skal fara til kirkju með mér en rekkju mína og rekkjutjald vil eg láta brenna í eldi því að það mun engum manni að nytjum verða.