Og að kveldi eins dags kemur landseti Blund-Ketils og segir sig vera í heyþroti og krefur úrlausna.
Bóndi svarar: "Hverju gegnir það? Eg þóttist svo til ætla að hausti að eg hugði að vel mundi hlýða."
Sjá svarar að færra var slátrað en hann sagði.
Blund-Ketill sagði: "Við skulum eiga kaup saman. Eg mun leysa þig úr vandræði þessu um sinn en þú seg þetta engum manni því að eg vil eigi venja menn upp á mig, allra helst síðan þér hafið þó eigi haft mín tillög."
Sá fór heim og sagði sínum vin að Blund-Ketill sé afbragð annarra manna í sínum viðskiptum og kvað hann sig úr vandræði leyst hafa. En sá sagði sínum vin og verður það svo víst um allt héraðið.
Líður stund og kemur gói. Þá koma tveir landsetar hans og segja sig í heyþroti.
Blund-Ketill svarar: "Illa hafið þér gert að þér hafið af brugðið mínum ráðum því að það er þann veg þó að vér höfum hey mikil þá höfum vér og fé því fleira. Nú ef eg miðla yður þá hefi eg ekki til míns fjár. Er nú hér um að kjósa."
Þeir ala á málið og tjá vesöld sína. En honum þótti hörmulegt að heyra á þeirra veinan og lét reka heim fjóra tigu hrossa og hundrað og lét drepa fjóra tigu hrossa þau er verst voru en gaf landsetum sínum það fóður sem hrossunum var ætlað áður. Fara þeir heim fegnir.
Veturinn gerist því verri sem meir leið á og verður örkola fyrir mörgum.
5. kafli
Nú kemur einmánuður og koma tveir landsetar Blund-Ketils. Þeir áttu sér hóti helst nokkurs kosti í fémunum en þó voru þeir nú í heyþroti og biðja hann úrlausna. Hann svarar þá og kveðst eigi til hafa enda lést hann eigi vilja drepa fleira fé. Þeir fréttu ef hann viti nokkura þá menn er hey hefðu til sölu. Hann kveðst eigi víst vita.