Er mér og verkið óleitt en þó vil eg engi vosverk vinna. Vil eg sjálf ráða hvað eg skal gefa fyrir mig af því fé sem eg hefi."
Talaði Þórgunna um heldur harðfærlega en Þuríður vildi þó að hún færi þangað. Voru þá föng Þórgunnu borin af skipi. Það var örk mikil læst, er hún átti, og sviptikista. Var það þá fært heim til Fróðár.
Og er Þórgunna kom til vistar sinnar bað hún fá sér rekkju. Var henni fengið rúm í innanverðum skála. Þá lauk hún upp örkina og tók þar upp úr rekkjuklæði og voru þau öll mjög vönduð. Breiddi hún yfir rekkjuna enskar blæjur og silkikult. Hún tók og úr örkinni rekkjurefil og allan ársalinn með. Það var svo góður búningur að menn þóttust eigi slíkan séð hafa þess kyns.
Þá mælti Þuríður húsfreyja: "Met þú við mig rekkjubúnaðinn."
Þórgunna svarar: "Eigi mun eg liggja í hálmi fyrir þig þó að þú sért kurteis og berist á mikið."
Þetta mislíkar Þuríði og falar eigi oftar gripina. Þórgunna vann voðverk hvern dag er eigi var heyverk. En þá er þerrar voru vann hún að þurru heyi í töðunni og lét gera sér hrífu þá er hún vildi ein með fara.
Þórgunna var mikil kona vexti, bæði digur og há og holdug mjög, svartbrún og mjóeyg, jörp á hár og hærð mjög, háttagóð hversdaglega og kom til kirkju hvern dag áður hún færi til verks síns en eigi var hún glöð eða margmálug hversdaglega. Það var áhugi manna að Þórgunna mundi sótt hafa hinn sétta tug og var hún þó kona hin ernasta.
Í þenna tíma var Þórir viðleggur kominn á framfærslu til Fróðár og svo Þorgríma galdrakinn kona hans og lagðist heldur þungt á með þeim Þórgunnu.
Kjartan sonur bónda var þar svo manna að Þórgunna vildi flest við eiga og elskaði hún hann mjög en hann var heldur fár við hana og varð hún oft af því skapstygg. Kjartan var þá þrettán vetra eða fjórtán og var bæði mikill vexti og skörulegur að sjá.