Og þegar er þingi var lokið lét Snorri goði gera kirkju að Helgafelli en aðra Styr mágur hans undir Hrauni. Og hvatti menn það mjög til kirkjugerðar að það var fyrirheit kennimanna að maður skyldi jafnmörgum mönnum eiga heimilt rúm í himinríki sem standa mættu í kirkju þeirri er hann léti gera.
Þóroddur skattkaupandi lét og kirkju gera á bæ sínum að Fróðá en prestar urðu eigi til að veita tíðir að kirkjum þótt gervar væru því að þeir voru fáir á Íslandi í þann tíma.
50. kafli
Sumar það er kristni var í lög tekin á Íslandi kom skip af hafi út við Snæfellsnes. Það var Dyflinnarfar. Voru þar á írskir menn og suðureyskir en fáir norrænir. Þeir lágu mjög lengi um sumarið við Rif og biðu þar byrjar að sigla inn eftir firði til Dögurðarness og fóru margir menn um Nesið til kaupa við þá.
Þar var á ein kona suðureysk er Þórgunna hét. Það sögðu hennar skipmenn að hún mundi hafa gripi þá með að fara að slíkir mundu torgætir á Íslandi.
En er Þuríður húsfreyja að Fróðá spyr þetta var henni mikil forvitni á að sjá gripina því að hún var glysgjörn og skartskona mikil. Fór hún þá til skips og fann Þórgunnu og spurði ef hún hefði kvenbúnað nokkurn þann er afbragðlegur væri. Hún kveðst enga gripi eiga til sölu en hafa lést hún gripi svo að hún væri óhneist að boðum eða öðrum mannfundum. Þuríður beiddist að sjá gripina og það veitti hún henni og sýndust henni vel gripirnir og sem best farandi en eigi fémiklir.
Þuríður falaði gripina en Þórgunna vildi eigi selja. Þá bauð Þuríður henni þangað til vistar með sér því að hún vissi að Þórgunna var fjölskrúðig og hugðist hún mundu fá gripina af henni í tómi.
Þórgunna svarar: "Gott þykir mér að fara til vistar með þér en vita skaltu það að eg nenni lítt að gefa fyrir mig því að eg er vel verkfær.