Örn svarar: "Ráða máttu ummælum þínum. Eigi látum vér kúgast að heldur."

Oddur ríður nú heim en Austmenn liggja þar í höfninni og gefur þeim eigi í brottu.


3. kafli

Annan dag eftir reið Hersteinn Blund-Ketilsson út á Nes. Hann fann Austmenn er hann reið utan. Kannast hann við stýrimann og varð vel að skapi.

Örn sagði Hersteini hversu mikinn ójafnað Oddur bauð þeim "og þykjumst vér eigi vita hversu vér skulum með fara voru máli."

Þeir talast við um daginn og að kveldi ríður Hersteinn heim og segir föður sínum frá farmönnum og hvar nú er komið þeirra máli.

Blund-Ketill svarar: "Við kennist eg mann þenna að þinni frásögn að því að eg var með föður hans þá eg var barn og hefi eg eigi nýtara dreng fundið en hans föður og er það illa að hans kosti er þröngt. Og það mundi faðir hans ætla að eg mundi nokkuð líta á hans mál ef hann þyrfti þess við. Og nú á morgun snemma skaltu ríða út í Höfn og bjóða honum hingað með svo marga menn sem hann vill. En ef hann vill annað heldur þá skal flytja hann hvert er hann vill, suður eða norður, og skal eg leggja á allan hug sem eg hefi föng á honum við að hjálpa."

Hersteinn kvað það gott ráð og drengilegt "er þó er meiri von að þar fyrir höfum vér óvingan annarra."