Um morguninn er þeir Bolli voru ferðar búnir þá mælti Óttar: "Vel hefir þú gert Bolli er þú hefir sótt heim bæ minn. Vil eg og sýna þér lítið tillæti, gefa þér gullhring og kunna þökk að þú þiggir. Hér er og fingurgull er fylgja skal."

 

Bolli þiggur gjafirnar og þakkar bónda. Óttar var á hesti sínum því næst og reið fyrir þeim leiðina því að fallið hafði snjór lítill um nóttina. Þeir ríða nú veg sinn út til Svarfaðardals.

 

Og er þeir hafa eigi lengi riðið snerist hann við Óttar og mælti til Bolla: "Það mun eg sýna að eg vildi að þú værir vin minn. Er hér annar gullhringur er eg vil þér gefa. Væri eg yður vel viljaður í því er eg mætti. Munuð þér og þess þurfa."

 

Bolli kvað bónda fara stórmannlega til sín "en þó vil eg þiggja hringinn."

 

"Þá gerir þú vel," segir bóndi.

 

 

87. kafli - Bardagi í Hestanesi

 

Nú er að segja frá Þorsteini af Hálsi. Þegar honum þykir von að Bolli muni norðan ríða þá safnar hann mönnum og ætlar að sitja fyrir Bolla og vill nú að verði umskipti um mál þeirra Helga. Þeir Þorsteinn hafa þrjá tigi manna og ríða fram til Svarfaðardalsár og setjast þar.

 

Ljótur hét maður er bjó á Völlum í Svarfaðardal. Hann var höfðingi mikill og vinsæll og málamaður mikill. Það var búningur hans hversdaglega að hann hafði svartan kyrtil og refði í hendi en ef hann bjóst til víga þá hafði hann blán kyrtil og öxi snaghyrnda. Var hann þá heldur ófrýnlegur.

 

Þeir Bolli ríða út eftir Svarfaðardal. Fylgir Óttar þeim út um bæinn að Hálsi og að ánni út. Þar sat fyrir þeim Þorsteinn við sína menn og þegar er Óttar sér fyrirsátina bregður hann við og keyrir hest sinn þvers í brott. Þeir Bolli ríða að djarflega og er þeir Þorsteinn sjá það og hans menn spretta þeir upp. Þeir voru sínum megin ár hvorir en áin var leyst með löndum en ís flaut á miðri. Hleypa þeir Þorsteinn út á ísinn.