Björn svarar: "Eigi mun eg keppast til fylgdar við þig meir en þér þykir hæfilegt en eigi hefi eg þar fyrr verið að eg hafi liðrækur verið ger. En það hygg eg," segir hann, "að yður verði Snorri goði djúpsær í ráðunum en eigi er eg framsýnn," sagði Björn, "en það er hugboð mitt að þar komi í þessi ferð að þér þyki þínir menn eigi of margir áður við finnumst næst."
Steinþór svarar: "Eg skal gera ráð fyrir oss meðan eg er hjá þó að eg sé eigi svo djúpsær sem Snorri goði."
"Mega skaltu það frændi fyrir mér," segir Björn.
Eftir þetta riðu þeir Steinþór brott af Bakka, nær sex tigir manna, inn eftir Skeiðum til Drápuhlíðar og inn yfir Vatnsháls og um þveran Svelgsárdal og stefndu þaðan inná Úlfarsfellsháls.
44. kafli
Snorri goði hafði sent nábúum sínum orð að þeir skyldu flytja skip sín undir Rauðavíkurhöfða. Fór hann þegar þangað með heimamenn sína er sendimaður Steinþórs var farinn brott. En því fór hann eigi fyrr að hann þóttist vita að maðurinn mundi sendur vera að njósna um athafnir hans.
Snorri fór inn eftir Álftafirði þrennum skipum og hafði nær fimm tigu manna og kom hann fyrr á Kársstaði en þeir Steinþór.
En er menn sáu ferð þeirra Steinþórs af Kársstöðum, þá mæltu Þorbrandssynir að þeir skyldu fara í móti þeim og láta þá eigi ná að komast í túnið "því að vér höfum lið mikið og frítt." Það voru átta tigir manna.
Þá svarar Snorri goði: "Eigi skal þeim verja bæinn og skal Steinþór ná lögum því að hann mun viturlega og spaklega fara með sínu máli. Vil eg að allir menn séu inni og kastist engum orðum á svo að af því aukist vandræði manna."
Eftir það gengu allir inn í stofu og settust í bekki en Þorbrandssynir gengu um gólf.