29. kafli
Þóroddur hét maður. Hann var ættaður af Meðalfellsströnd, skilgóður maður.
Hann var farmaður mikill og átti skip í ferðum. Þóroddur hafði siglt
kaupferð vestur til Írlands, til Dyflinnar.
Í þann tíma hafði Sigurður jarl Hlöðvésson í Orkneyjum herjað til Suðureyja
og allt vestur í Mön. Hann lagði gjald á Manarbyggðina. Og er þeir höfðu
sæst setti jarl eftir menn að bíða skattsins en hann var mest goldinn í
brenndu silfri. En jarl sigldi þá undan norður til Orkneyja.
En er þeir voru seglbúnir er skattsins biðu tóku þeir útsunnanveður. Og er
þeir höfðu siglt um stund gekk veður til landsuðurs og austurs og gerði
storm mikinn og bar þá norður um Írland og brutu þar skipið í spón við ey
eina óbyggða. Og er þeir voru þar að komnir bar þar að þeim Þórodd Íslending
er hann sigldi úr Dyflini. Jarlsmenn kölluðu á kaupmenn til hjálpar sér.
Þóroddur lét skjóta báti og gekk þar á sjálfur. En er þeir fundust hétu
jarlsmenn á Þórodd til hjálpar sér og buðu honum fé til að hann flytti þá
heim til Orkneyja á fund Sigurðar jarls en Þóroddur þóttist það eigi mega er
hann var áður búinn til Íslandsferðar. En þeir skoruðu á hann fast því að
þeim þótti við liggja fé sitt og frelsi að þeir væru eigi upp leiddir á
Írland eða Suðureyjar þar sem þeir höfðu áður herjað. Og svo kom að hann
seldi þeim bátinn frá hafskipinu og tók þar við mikinn hlut af skattinum.
Héldu þeir síðan bátinum til Orkneyja en Þóroddur sigldi bátlaust til
Íslands og kom sunnan að landinu. Hélt hann síðan vestur fyrir og sigldi inn
á Breiðafjörð og kom með heilu í Dögurðarnes og fór um haustið til vistar
með Snorra goða til Helgafells. Hann var síðan kallaður Þóroddur
skattkaupandi.
Þetta var litlu eftir víg Þorbjarnar digra. Þann vetur var að Helgafelli
Þuríður, systir Snorra goða, er Þorbjörn digri hafði átt.