Hann tók land fyrir sunnan fjörðinn, nær miðjum, og lagði skipið á vog þann
er þeir kölluðu Hofsvog síðan. Eftir það könnuðu þeir landið og fundu á nesi
framanverðu er var fyrir norðan voginn að Þór var á land kominn með
súlurnar. Það var síðan kallað Þórsnes.
Eftir það fór Þórólfur eldi um landnám sitt, utan frá Stafá og inn til
þeirrar ár er hann kallaði Þórsá, og byggði þar skipverjum sínum.
Hann setti bæ mikinn við Hofsvog er hann kallaði á Hofsstöðum. Þar lét hann
reisa hof og var það mikið hús. Voru dyr á hliðvegginum og nær öðrum
endanum. Þar fyrir innan stóðu öndvegissúlurnar og voru þar í naglar. Þeir
hétu reginnaglar. Þar var allt friðarstaður fyrir innan. Innar af hofinu var
hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum og stóð þar stalli á miðju
gólfinu sem altari og lá þar á hringur einn mótlaus, tvítugeyringur, og
skyldi þar að sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér
til allra mannfunda. Á stallanum skyldi og standa hlautbolli og þar í
hlautteinn sem stökkull væri og skyldi þar stökkva með úr bollanum blóði því
er hlaut var kallað. Það var þess konar blóð er sæfð voru þau kvikindi er
goðunum var fórnað. Umhverfis stallann var goðunum skipað í afhúsinu. Til
hofsins skyldu allir menn tolla gjalda og vera skyldir hofgoðanum til allra
ferða sem nú eru þingmenn höfðingjum en goði skyldi hofi upp halda af sjálfs
síns kostnaði, svo að eigi rénaði, og hafa inni blótveislur.
Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur
eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi
engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né
mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði
að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.