Þá mælti Dofri: "Þú Búi hefir hér vel verið í vetur að vorri vitund og til
marks viljum vér að það sjáist með sönnum jartegnum að þú hefir oss heim
sótt. Tafl er hér er eg vil gefa þér. Þenna greip veit eg svo að Haraldi
konungi fóstra mínum leikur mestur hugur á. Gullhring þenna skaltu þiggja að
mér."
Búi þakkaði honum með mörgum fögrum orðum sinn velgerning og þá miklu sæmd
er hann gerði til hans og bað hann sitja allra konunga heilastan. Eftir það
tóku þau orlof til handa Búa og sneru þá í brott. Sem þau komu til
hellisdyra þau laukst upp hellirinn.
Gekk Fríður þá út og mælti til Búa: "Nú er svo komið Búi sem eg sagði þér að
eg geng með barni þínu. Skal eg nú segja þér hver skipan á því skal vera. Ef
það er meybarn þá skal það hér vera með mér en ef það er sveinn þá mun eg
þér senda hann er hann er tólf vetra gamall. Skaltu þá vel við honum taka en
ef þú gerir ei svo þá muntu á þínum hlut kenna. Hvergi mun eg leiða þig. Far
þú vel," segir Fríður.
Eftir það skilja þau.
15. kafli
Gekk Búi leið sína og létti eigi fyrr en hann kom til Rauðs. Tók hann vel
við honum og spurði að ferðum hans en Búi sagði af hið sanna.
Rauður mælti: "Mikla gæfu hefir þú borið til um þína för. En svo muntu eiga
við að búast að eigi mun Haraldur konungur þessu einu við þig hlíta því að
nú mun hann etja á þig því trölli er eg veit mest í Noregi. En það er
blámaður sá er mörgum manni hefir að bana orðið. Nú vil eg gefa þér
fangastakk þann er þú skalt þá hafa. Vænti eg þá að þú munir eigi allmjög
kenna hvar sem hann leggur að þér krummur sínar því að hann brýtur bein í
flestum ef hann deyðir eigi."
Búi þakkaði Rauð sinn velgerning. Dvaldist hann þar nokkurar nætur, fór
síðan ofan í Þrándheim. Spurði hann þá til konungs að hann var að
Steinkerum. Sem Búi kom þar gekk hann á konungs fund og kvaddi hann.
Konungur leit við honum og mælti: "Ertu þar Búi? Hversu tók Dofri þér?"