Þorleikur svarar: "Eigi eru föl hrossin."
Eldgrímur mælti: "Eg býð þér jafnmörg stóðhross við og meðalauka nokkurn og
munu margir mæla að eg bjóði við tvenn verð."
Þorleikur mælti: "Engi er eg mangsmaður því að þessi hross færð þú aldregi
þótt þú bjóðir við þrenn verð."
Eldgrímur mælti: "Eigi mun það logið að þú munt vera stór og einráður. Mundi
eg það og vilja að þú hefðir óríflegra verðið en nú hefi eg þér boðið og
létir þú hrossin eigi að síður."
Þorleikur roðnaði mjög við þessi orð og mælti: "Þurfa muntu Eldgrímur að
ganga nær ef þú skalt kúga af mér hrossin."
Eldgrímur mælti: "Ólíklegt þykir þér það að þú munir verða halloki fyrir
mér. En þetta sumar mun eg fara að sjá hrossin hvor okkar sem þá hlýtur þau
að eiga þaðan í frá."
Þorleikur segir: "Ger sem þú heitir og bjóð mér engan liðsmun."
Síðan skilja þeir talið.
Það mæltu menn er heyrðu að hér væri maklega á komið um þeirra skipti. Síðan
fóru menn heim af þingi og var allt tíðindalaust.
Það var einn morgun snemma að maður sá út á Hrútsstöðum að Hrúts bónda
Herjólfssonar. En er hann kom inn spurði Hrútur tíðinda. Sá kveðst engi
tíðindi kunna að segja önnur en hann kveðst sjá mann ríða handan um vaðla og
þar til er hross Þorleiks voru "og sté maðurinn af baki og höndlaði
hrossin."
Hrútur spurði hvar hrossin væru þá.
Húskarl mælti: "Vel höfðu þau enn haldið haganum. Þau stóðu í engjum þínum
fyrir neðan garð."
Hrútur svarar: "Það er satt að Þorleikur frændi er jafnan ómeskinn um
beitingar og enn þykir mér líkara að eigi séu að hans ráði hrossin rekin á
brott."
Síðan spratt Hrútur upp í skyrtu og línbrókum og kastaði yfir sig grám feldi
og hafði í hendi bryntröll gullrekið er Haraldur konungur gaf honum. Hann
gekk út nokkuð snúðigt og sá að maður reið að hrossum fyrir neðan garð.
Hrútur gekk í móti honum og sá að Eldgrímur rak hrossin. Hrútur heilsaði
honum. Eldgrímur tók kveðju hans og heldur seint. Hrútur spurði hvert hann
skyldi reka hrossin.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.