Og enn mælti Gestur: "Sá var draumur þinn annar að þú þóttist hafa
silfurhring á hendi. Þar muntu vera gift öðrum manni ágætum. Þeim muntu unna
mikið og njóta skamma stund. Kemur mér ekki það að óvörum þótt þú missir
hans með drukknun og eigi geri eg þann draum lengra. Sá var hinn þriðji
draumur þinn að þú þóttist hafa gullhring á hendi. Þar muntu eiga hinn
þriðja bónda. Ekki mun sá því meira verður sem þér þótti sá málmurinn
torugætari og dýrri en nær er það mínu hugboði að í það mund muni orðið
siðaskipti og muni sá þinn bóndi hafa tekið við þeim sið er vér hyggjum að
miklu sé betri og háleitari. En þar er þér þótti hringurinn í sundur
stökkva, nokkuð af þinni vangeymslu, og sást blóð koma úr hlutunum, þá mun
sá þinn bóndi vera veginn. Muntu þá þykjast glöggst sjá þá þverbresti er á
þeim ráðahag hafa verið."
Og enn mælti Gestur: "Sjá er hinn fjórði draumur þinn að þú þóttist hafa
hjálm á höfði af gulli og settan gimsteinum og varð þér þungbær. Þar munt þú
eiga hinn fjórða bónda. Sá mun vera mestur höfðingi og mun bera heldur
ægishjálm yfir þér. Og þar er þér þótti hann steypast út á Hvammsfjörð þá
mun hann þann sama fjörð hitta á efstum stundum síns lífs. Geri eg nú þenna
draum ekki lengra."
Guðrúnu setti dreyrrauða meðan draumarnir voru ráðnir en engi hafði hún orð
um fyrr en Gestur lauk sínu máli.
Þá segir Guðrún: "Hitta mundir þú fegri spár í þessu máli ef svo væri í
hendur þér búið af mér en haf þó þökk fyrir er þú hefir ráðið draumana. En
mikið er til að hyggja ef þetta allt skal eftir ganga."
Guðrún bauð þá Gesti af nýju að hann skyldi þar dveljast um daginn, kvað þá
Ósvífur margt spaklegt tala mundu.
Hann svarar: "Ríða mun eg sem eg hefi á kveðið en segja skaltu föður þínum
kveðju mína og seg honum þau mín orð að koma mun þar að skemmra mun í milli
bústaða okkarra Ósvífurs og mun okkur þá hægt um tal ef okkur er þá leyft að
talast við."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.