Mörður Valgarðsson nefndi sér votta í annað sinn. "Nefni eg í það vætti,"
sagði hann, "að eg tek miskviðu alla úr máli mínu hvort sem mér verður
ofmælt eða vanmælt. Vil eg eiga rétting allra orða minna uns eg kem máli
mínu til réttra laga. Nefni eg mér þessa votta eða þeim öðrum er neyta eða
njóta þurfa þessa vættis."
Mörður Valgarðsson nefndi sér votta. "Nefni eg í það vætti," sagði hann, "að
eg býð Flosa Þórðarsyni eða þeim manni öðrum en handselda lögvörn hefir
fyrir hann að hlýða til eiðspjalls míns og til framsögu sakar minnar og til
sóknargagna þeirra allra er eg hygg fram að færa á hendur honum. Býð eg
lögboði að dómi svo að dómendur heyra um dóm þveran."
Mörður Valgarðsson mælti: "Nefni eg í það vætti," sagði hann, "að eg vinn
eið að bók, lögeið, og segi eg það guði að eg skal svo sök þessa sækja sem
eg veit sannast og réttast og helst að lögum og öll lögmæt skil af hendi
inna meðan eg er að þessu máli."
Síðan kvað hann svo að orði: "Þórodd nefndi eg í vætti, annan Þorbjörn
nefndi eg í það vætti að eg lýsti lögmætu frumhlaupi á hönd Flosa Þórðarsyni
á þeim vettvangi er Flosi Þórðarson hljóp lögmætu frumhlaupi til Helga
Njálssonar þá er Flosi Þórðarson særði Helga Njálsson holundarsári eða
heilundar eða mergundar því er að ben gerðist en Helgi fékk bana af. Taldi
eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan, skógarmann óalanda, óferjanda,
óráðanda öllum bjargráðum. Taldi eg sekt fé hans allt, hálft mér en hálft
fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga að taka eftir hann að lögum. Lýsti eg
til fjórðungsdóms þess sem sökin á í að koma að lögum. Lýsti eg löglýsing.
Lýst eg í heyranda hljóði að Lögbergi. Lýsti eg nú til sóknar í sumar og til
sektar fullrar á hönd Flosa Þórðarsyni. Lýsti eg handseldri sök Þorgeirs
Þórissonar. Hafði eg þau orð öll í lýsingu minni sem nú hafði eg í framsögu
sakar minnar. Segi eg svo skapaða skóggangssök þessa fram í Austfirðingadóm
yfir höfði Jóni sem eg kvað að þá er eg lýsti."