142. kafli

Nú líður þar til er dómar skulu út fara. Bjuggu þeir sig þá til
hvorirtveggju og vopnuðust. Þeir gerðu hvorirtveggju herkuml á hjálmum
sínum.

Þórhallur Ásgrímsson mælti: "Farið þér nú faðir minn að engu allæstir og
gerið nú allt sem réttast. En ef nokkuð vandast í fyrir yður látið mig vita
sem skjótast og skal eg þá gefa ráð til með yður."

Þeir Ásgrímur litu til hans og var andlit hans sem í blóð sæi en stórt hagl
hraut úr augum honum. Hann bað færa sér spjót sitt. Það hafði Skarphéðinn
gefið honum og var hin mesta gersemi.

Ásgrímur mælti er þeir gengu í braut: "Eigi var Þórhalli frænda gott í hug
er hann var eftir í búðinni og eigi veit eg hvað hann tekur til. Nú skulum
vér ganga til með Merði Valgarðssyni," sagði Ásgrímur, "og láta fyrst sem
ekki sé annað því að meiri er veiður í Flosa en í mörgum öðrum."

Ásgrímur sendi þá mann til Gissurar hvíta og Hjalta Skeggjasonar og
Guðmundar ríka. Þeir komu nú allir saman og gengu þegar til
Austfirðingadóms. Þeir gengu sunnan að dóminum. Þeir Flosi og allir
Austfirðingar með honum gengu norðan að dóminum. Þar voru og Reykdalir og
Öxfirðingar og Ljósvetningar með Flosa. Þar var og Eyjólfur Bölverksson.

Flosi laut að Eyjólfi og mælti: "Hér fer vænt að og kann vera að eigi fari
fjarri því sem þú gast til."

"Lát þú hljótt yfir því," segir Eyjólfur. "Koma mun þar er vér munum þurfa
þess að neyta."

Mörður Valgarðsson nefndi sér votta og bauð til hlutfalla öllum þeim mönnum
er skóggangssakar áttu að sækja í dóminn, hver sína sök skyldi fyrstur fram
segja eða hver þar næst eða hver síðast. Bauð hann lögboði að dómi svo að
dómendur heyrðu. Þá voru hlutaðar framsögur og hlaut hann fyrst fram að
segja sína sök.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa