Kári þakkaði honum sína ráðagerð. Ekki talaði Kári um liðveislu við hann því
að hann ætlaði að það mundi honum fara vinveittlega sem annað.
Kári reið þaðan austur yfir ár og svo til Fljótshlíðar og austur yfir
Markarfljót og svo til Seljalandsmúla. Þeir ríða austur í Holt. Þorgeir tók
við þeim með hinni mestu blíðu. Hann sagði þeim um ferðir Flosa og hversu
mikið lið hann hafði þegið í Austfjörðum. Kári sagði að það var vorkunn að
hann bæði sér liðs svo mörgu sem hann mundi svara eiga.
Þorgeir mælti: "Því betur er þeim fer öllum verr af."
Kári segir Þorgeiri tillögur Gissurar.
Síðan riðu þeir austan á Rangárvöllu til Marðar Valgarðssonar. Hann tók vel
við þeim. Kári sagði honum orðsending Gissurar mágs hans. Hann tók seinlega
undir það og kvað meira að sækja Flosa einn en tíu aðra.
Kári mælti: "Jafnt fer þér þetta sem hann ætlaði því að þér eru allir hlutir
illa gefnir. Þú ert bæði hræddur og huglaus enda skal það á bak koma sem þér
er maklegt að Þorkatla skal fara heim til föður síns."
Hún bjóst þegar og kvaðst þess fyrir löngu búin að skildi með þeim Merði.
Mörður skipti þá skjótt skapi sínu og svo orðum og bað af sér reiði og tók
þegar við málinu.
Kári mælti þá: "Nú hefir þú tekið við málinu og sæk nú óhræddur því að líf
þitt liggur við."
Mörður kvaðst allan hug skyldu á leggja að gera þetta vel og drengilega.
Eftir það stefndi Mörður til sín níu búum. Þeir voru allir vettvangsbúar.
Mörður tók þá í hönd Þorgeiri og nefndi votta tvo "í það vætti að Þorgeir
Þórisson selur mér vígsök á hendur Flosa Þórðarsyni að sækja um víg Helga
Njálssonar með sóknargögnum þeim öllum er sökinni eiga að fylgja. Selur þú
mér sök þessa að sækja og að sættast á, svo allra gagna að njóta sem eg sé
réttur aðili. Selur þú með lögum en eg tek með lögum."