Nú er þar til máls að taka að Kári Sölmundarson og Þórhallur Ásgrímsson riðu
einhvern dag til Mosfells að finna Gissur hvíta. Hann tók við þeim báðum
höndum og voru þeir þar mjög langa hríð.
Það var einu hverju sinni þá er þeir Gissur töluðu um brennu Njáls að Gissur
kvað það allmikla giftu er Kári hafði í braut komist.
Þá varð Kára vísa á munni:
Hjálmskassa fór hvessir,
herðimeiðr, af reiði
út úr elris sveita
ófús Níals húsa
þá er eld-Gunnar inni
óðrunnar þar brunnu.
Menn nemi mál sem eg inni
mín, harmsakir tínum.
Þá mælti Gissur: "Vorkunn er það er þér sé minnisamt og skulum við nú ekki
um tala fleira að sinni."
Kári sagði að hann ætlaði þá heim að ríða.
Gissur mælti: "Eg mun nú gera mér dælt um ráðagerð við þig. Þú skalt eigi
heim ríða en þó skalt þú í braut ríða og austur undir Eyjafjöll að finna
Þorgeir skorargeir og Þorleif krák. Þeir skulu ríða austan með þér því að
þeir eru aðiljar sakanna. Með þeim skal ríða Þorgrímur hinn mikli bróðir
þeirra. Þér skuluð ríða til Marðar Valgarðssonar. Skalt þú segja honum orð
mín til að hann taki við vígsmáli eftir Helga Njálsson á hendur Flosa. En ef
hann mælir nokkuru orði í móti þessu þá skalt þú gera þig sem reiðastan og
lát sem þú munir hafa öxi í höfði honum. Þú skalt og í annan stað segja á
reiði mína ef hann lætur illa að komast. Þar með skalt þú segja að eg mun
láta sækja Þorkötlu dóttur mína og láta hana fara heim til mín en það mun
hann eigi þola því að hann ann henni sem augum í höfði sér."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa