Bjarni tók við Flosa báðum höndum. Flosi bauð Bjarna fé til liðveislu.
Bjarni mælti: "Aldrei hefi eg selt karlmennsku mína við fémútu eða
liðveislu. En nú er þú þarft liðs mun eg gera þér um vinveitt og ríða til
þings með þér og veita þér sem eg mundi bróður mínum."
"Þá snýrðu öllum vanda á hendur mér," segir Flosi, "en þó var mér slíks að
þér von."
Þaðan fóru þeir Flosi til Krossavíkur. Þar bjó Þorkell Geitisson. Þorkell
var vinur Flosa mikill áður. Flosi sagði honum erindi sitt. Þorkell kvað það
skylt vera að hann veitti honum slíkt er hann væri til fær og skiljast eigi
við hans mál. Þorkell gaf Flosa góðar gjafar að skilnaði.
Þá fór Flosi norðan úr Vopnafirði og upp í Fljótsdalshérað og gisti að
Hólmsteins Spak-Bersasonar. Flosi sagði honum að allir hefðu vel staðið
undir hans nauðsyn og erindi nema Sörli Brodd-Helgason. Hólmsteinn kvað það
til þess bera að hann væri engi ofstopamaður. Hólmsteinn gaf Flosa góðar
gjafar. Flosi fór upp Fljótsdal og þaðan suður á fjall um Öxarhraun og ofan
Sviðinhornadal og út með Álftafirði fyrir vestan og lauk Flosi eigi ferð
fyrr en hann kom til Þvottár til Halls mágs síns. Þar var Flosi hálfan mánuð
og menn hans og hvíldu sig.
Flosi spurði Hall hvað hann legði til ráðs með honum, hversu hann skyldi nú
með fara eða breyta högum sínum.
Hallur mælti: "Það ræð eg að þú sért heima við bú þitt og Sigfússynir en
þeir sendi menn til að skipa til búa sinna en þér farið heim að sinni. En þá
er þér ríðið til þings, ríðið allir saman og dreifið ekki flokki yðrum. Fari
þá Sigfússynir að hitta konur sínar. Eg mun og ríða til þings og Ljótur
sonur minn með alla þingmenn okkra og veita þér slíkt lið sem eg má mér við
koma."
Flosi þakkaði honum. Hallur gaf honum góðar gjafar að skilnaði.
Flosi fór þá frá Þvottá og er ekki um hans ferð að tala fyrr en hann kemur
heim til Svínafells. Er hann þá heima það er eftir var vetrarins og sumarið
allt til þings framan.