"Eigi veit eg það," segir Sörli, "meðan eg veit eigi hvaðan Guðmundur hinn
ríki stendur að, mágur minn, því að eg ætla honum að veita hvaðan sem hann
stendur að."

Flosi mælti: "Finn eg það á svörum þínum að þú hefir kvonríki."

Flosi stóð þá upp og bað taka klæði þeirra og vopn. Fóru þeir þá í braut og
fengu þar enga liðveislu.

Þeir fóru fyrir neðan Lagarfljót og yfir heiði til Njarðvíkur. Þar bjuggu
bræður tveir, Þorkell fullspakur og Þorvaldur. Þeir voru synir Ketils þryms
Þiðrandasonar hins spaka, Ketilssonar þryms, Þórissonar þiðranda. Móðir
þeirra Þorkels fullspaks og Þorvalds var Yngveldur Þorkelsdóttir fullspaks.
Flosi hafði þar góðar viðtökur. Hann sagði þeim bræðrum deili á um erindi
sín og bað þá liðveislu en þeir synjuðu áður en hann gaf þeim þrjár merkur
silfurs hvorum þeirra til liðveislu. Þá játuðu þeir að veita Flosa.

Yngveldur móðir þeirra var hjá stödd er þeir hétu alþingisreiðinni og grét.

Þorkell mælti: "Hví grætur þú móðir?"

Hún svarar: "Mig dreymdi að Þorvaldur bróðir þinn væri í rauðum kyrtli og
þótti mér svo þröngur vera sem saumaður væri að honum. Mér þótti hann og
vera í rauðum hosum undir og vafið að vondum dreglum. Mér þótti illt á að
sjá er eg vissi að honum var svo óhægt en eg mátti ekki að gera."

Þeir hlógu að og kváðu vera loklausu og sögðu geip hennar ekki skyldu standa
fyrir þingreiðum sínum.

Flosi þakkaði þeim vel og fór þaðan til Vopnafjarðar og komu til Hofs. Þar
bjó þá Bjarni Brodd-Helgason Þorgilssonar, Þorsteinssonar hins hvíta,
Ölvissonar, Eyvaldssonar, Öxna-Þórissonar. Móðir Bjarna var Halla
Lýtingsdóttir. Móðir Brodd-Helga var Ásvör dóttir Þóris Graut-Atlasonar,
Þórissonar þiðranda. Bjarni Brodd-Helgason átti Rannveigu Þorgeirsdóttur,
Eiríkssonar úr Goðdölum, Geirmundarsonar, Hróaldssonar, Eiríkssonar
örðigskeggja.


Fred and Grace Hatton
Hawley Pa