Hans orð mæltust vel fyrir. Síðan töluðu þeir um og urðu eigi á sáttir hver
fyrst skyldi upp kveða hversu mikil fésekt vera skyldi. Og kom svo að þeir
hlutuðu um og hlaut Snorri upp að kveða.
Snorri mælti: "Ekki mun eg lengur yfir þessu sitja. Mun eg nú segja yður
hvað mitt ákvæði er, að eg vil Höskuld bæta láta þrennum manngjöldum en það
eru sex hundruð silfurs. Skuluð þér nú að gera ef yður þykir of mikið eða of
lítið."
Þeir svöruðu að þeir skyldu hvergi að gera.
"Það skal og fylgja," sagði hann, "að hér skal allt féið upp gjaldast á
þinginu."
Þá mælti Gissur hvíti: "Þetta þykir mér varla vera mega því að þeir munu hér
lítinn einn hlut hafa að gjalda fyrir sig."
Guðmundur hinn ríki mælti: "Eg veit hvað Snorri vill. Það vill hann að vér
gefum til allir gerðarmenn slíkt sem vor er drengskapur til og mun þar þá
margur eftir gera."
Hallur af Síðu þakkaði honum og kveðst gjarna vilja til gefa sem sá er mest
gæfi. Játuðu því þá allir gerðarmenn. Eftir það gengu þeir í braut og réðu
það með sér að Hallur skyldi segja upp gerðina að Lögbergi.
Eftir það var hringt og gengu allir menn til Lögbergs.
Hallur af Síðu stóð upp og mælti: "Mál þessi, er vér höfum gert um, höfum
vér orðið vel á sáttir og höfum gert sex hundruð silfurs. Skulum vér gjalda
upp helminginn gerðarmenn og skal hér allt upp gjaldast á þinginu. En það er
bænarstaður minn til allrar alþýðu að nokkurn hlut gefi til fyrir guðs
sakir."
Því svöruðu allir vel. Nefndi Hallur þá votta að gerðinni að hana skyldi
engi rjúfa mega. Njáll þakkaði þeim gerðina. Skarphéðinn stóð hjá og þagði
og glotti við. Gengu menn þá frá Lögbergi og til búða sinna.
En gerðarmenn báru saman í bóndakirkjugarði fé það sem þeir höfðu heitið til
að leggja. Njálssynir seldu fram fé það er þeir höfðu og svo Kári og var það
hundrað silfurs. Njáll tók þá fé það er hann hafði og var það annað hundrað
silfurs. Síðan var fé þetta borið allt saman í Lögréttu og gáfu menn þá svo
mikið til að engan pening vantaði á. Njáll tók þá silkislæður og bóta og
lagði á hrúguna ofan.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa