Og er hann var albúinn og skip hans lá til byrjar fyrir bryggjunum þá kom
þar að honum Suðurmaður einn, ættaður af Brimum úr Saxlandi. Hann falar af
Karlsefni húsasnotru hans.

"Eg vil eigi selja," sagði hann.

"Eg mun gefa þér við hálfa mörk gulls," segir Suðurmaður.

Karlsefni þótti vel við boðið og keyptu síðan. Fór Suðurmaður í burt með
húsasnotruna en Karlsefni vissi eigi hvað tré var. En það var mösur kominn
af Vínlandi.

Nú siglir Karlsefni í haf og kom skipi sínu fyrir norðan land í Skagafjörð
og var þar upp sett skip hans um veturinn. En um vorið keypti hann
Glaumbæjarland og gerði bú á og bjó þar meðan hann lifði og var hið mesta
göfugmenni og er mart manna frá honum komið og Guðríði konu hans og góður
ættbogi.

Og er Karlsefni var andaður tók Guðríður við búsvarðveislu og Snorri son
hennar er fæddur var á Vínlandi.

Og er Snorri var kvongaður þá fór Guðríður utan og gekk suður og kom út
aftur til bús Snorra sonar síns og hafði hann þá látið gera kirkju í
Glaumbæ.

Síðan varð Guðríður nunna og einsetukona og var þar meðan hún lifði.

Snorri átti son þann er Þorgeir hét. Hann var faðir Yngveldar móður Brands
biskups. Dóttir Snorra Karlsefnissonar hét Hallfríður. Hún var kona Runólfs
föður Þorláks biskups. Björn hét sonur Karlsefnis og Guðríðar. Hann var
faðir Þórunnar móður Bjarnar biskups.

Fjöldi manna er frá Karlsefni komið og er hann kynsæll maður orðinn. Og
hefir Karlsefni gerst sagt allra manna atburði um farar þessar allar er nú
er nokkuð orði á komið.



Fred and Grace Hatton
Hawley Pa