Nú fóru þau til skála síns eftir það hið illa verk og fannst það eitt á að
Freydís þóttist allvel hafa um ráðið og mælti við félaga sína: "Ef oss
verður auðið að koma til Grænlands," segir hún, "þá skal eg þann mann ráða
af lífi er segir frá þessum atburðum. Nú skulum vér það segja að þau búi hér
eftir þá er vér förum í brott."
Nú bjuggu þeir skipið snemma um vorið, það er þeir bræður höfðu átt, með
þeim öllum gæðum er þau máttu til fá og skipið bar, sigla síðan í haf og
urðu vel reiðfara og komu í Eiríksfjörð skipi sínu snemma sumars. Nú var þar
Karlsefni fyrir og hafði albúið skip sitt til hafs og beið byrjar og er það
mál manna að eigi mundi auðgara skip gengið hafa af Grænlandi en það er hann
stýrði.
8.
Freydís fór nú til bús síns því að það hafði staðið meðan óskatt. Hún fékk
mikinn feng fjár öllu föruneyti sínu því að hún vildi leyna láta ódáðum
sínum. Situr hún nú í búi sínu.
Eigi urðu allir svo haldinorðir að þegðu yfir ódáðum þeirra eða illsku að
eigi kæmi upp um síðir. Nú kom þetta upp um síðir fyrir Leif bróður hennar
og þótti honum þessi saga allill. Þá tók Leifur þrjá menn af liði þeirra
Freydísar og píndi þá til sagna um þenna atburð allan jafnsaman og var með
einu móti sögn þeirra.
"Eigi nenni eg," segir Leifur, "að gera það að við Freydísi systur mína sem
hún væri verð en spá mun eg þeim þess að þeirra afkvæmi mun lítt að þrifum
verða."
Nú leið það svo fram að öngum þótti um þau vert þaðan í frá nema ills.
Nú er að segja frá því er Karlsefni býr skip sitt og sigldi í haf. Honum
fórst vel og kom til Noregs með heilu og höldnu og sat þar um veturinn og
seldi varning sinn og hafði þar gott yfirlæti og þau bæði hjón af hinum
göfgustum mönnum í Noregi. En um vorið eftir bjó hann skip sitt til Íslands.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa