Þaðan fór hún á fund Leifs bróður síns og bað að hann gæfi henni hús þau er
hann hafði gera látið á Vínlandi. En hann svarar hinu sama, kveðst ljá mundu
hús en gefa eigi.
Sá var máldagi með þeim bræðrum og Freydísi að hvorir skyldu hafa þrjá tigi
vígra manna á skipi og konur umfram. En Freydís brá af því þegar og hafði
fimm mönnum fleira og leyndi þeim og urðu þeir bræður eigi fyrri við þá
varir en þeir komu til Vínlands.
Nú létu þau í haf og höfðu til þess mælt áður að þau mundu samflota hafa ef
svo vildi verða, og þess var lítill munur. En þó komu þeir bræður nokkuru
fyrri og höfðu upp borið föng sín til húsa Leifs. En er Freydís kom að landi
þá ryðja þeir skip sitt og bera upp til húss föng sín.
Þá mælti Freydís: "Hví báruð þér inn hér föng yður?"
"Því að vér hugðum," segja þeir, "að haldast muni öll ákveðin orð með oss."
"Mér léði Leifur húsanna," segir hún, "en eigi yður."
Þá mælti Helgi: "Þrjóta mun okkur bræður illsku við þig."
Báru nú út föng og gerðu sér skála og settu þann skála firr sjónum á
vatnsströndu og bjuggu vel um. En Freydís lét fella viðu til skips síns.
Nú tók að vetra og töluðu þeir bræður að takast mundu upp leikar og væri
höfð skemmtan. Svo var gert um stund þar til er menn bárust verra í milli.
Og þá gerðist sundurþykki með þeim og tókust af leikar og öngar gerðust
komur milli skálanna. Og fór svo fram lengi vetrar.
Það var einn morgun snemma að Freydís stóð upp úr rúmi sínu og klæddist og
fór eigi í skóklæðin en veðri var svo farið að dögg var fallin mikil. Hún
tók kápu bónda síns og fór í en síðan gekk hún til skála þeirra bræðra og
til dyra. En maður einn hafði út gengið litlu áður og lokið hurð aftur á
miðjan klofa. Hún lauk upp hurðinni og stóð í gáttum stund þá og þagði. En
Finnbogi lá innstur í skálanum og vakti.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa