Þá tóku Skrælingjar ofan bagga sína og leystu og buðu þeim og vildu vopn
helst fyrir en Karlsefni bannaði þeim að selja vopnin.
Og nú leitar hann ráðs með þeim hætti að hann bað konur bera út búnyt að
þeim og þegar er þeir sáu búnyt þá vildu þeir kaupa það en ekki annað. Nú
var sú kaupför Skrælingja að þeir báru sinn varning í brott í mögum sínum en
Karlsefni og förunautar hans höfðu eftir bagga þeirra og skinnavöru. Fóru
þeir við svo búið í burt.
Nú er frá því að segja að Karlsefni lætur gera skíðgarð rammlegan um bæ sinn
og bjuggust þar um. Í þann tíma fæddi Guðríður sveinbarn, kona Karlsefnis,
og hét sá sveinn Snorri.
Á öndverðum öðrum vetri þá komu Skrælingjar til móts við þá og voru miklu
fleiri en fyrr og höfðu slíkan varnað sem fyrr.
Þá mælti Karlsefni við konur: "Nú skuluð þér bera út slíkan mat sem fyrr var
rífastur en ekki annað."
Og er þeir sáu það þá köstuðu þeir böggunum sínum inn yfir skíðgarðinn. En
Guðríður sat í dyrum inni með vöggu Snorra sonar síns. Þá bar skugga í dyrin
og gekk þar inn kona í svörtum námkyrtli, heldur lág, og hafði dregil um
höfuð, og ljósjörp á hár, fölleit og mjög eygð svo að eigi hafði jafnmikil
augu séð í einum mannshausi.
Hún gekk þar er Guðríður sat og mælti: "Hvað heitir þú?" segir hún.
"Ég heiti Guðríður eða hvert er þitt heiti?"
"Ég heiti Guðríður," segir hún.
Þá rétti Guðríður húsfreyja hönd sína til hennar að hún sæti hjá henni en
það bar allt saman að þá heyrði Guðríður brest mikinn og var þá konan horfin
og í því var og veginn einn Skrælingi af einum húskarli Karlsefnis því að
hann hafði viljað taka vopn þeirra og fóru nú í brott sem tíðast en klæði
þeirra lágu þar eftir og varningur. Engi maður hafði konu þessa séð utan
Guðríður ein.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa