Hún vatt upp skriðljósi og mælti: "Hér er nú, Njáll, Höskuldur son þinn og
hefir fengið á sér sár mörg og mun hann nú þurfa lækningar."
Njáll mælti: "Dauðamörk sé eg á honum en engi lífsmörk eða hví hefir þú eigi
veitt honum nábjargir er opnar eru nasarnar?"
"Það ætlaði eg Skarphéðni," segir hún.
Skarphéðinn gekk að og veitti honum nábjargir.
Skarphéðinn mælti þá við föður sinn: "Hver segir þú að hann hafi vegið?"
Njáll svarar: "Lýtingur af Sámsstöðum mun hafa vegið hann og bræður hans."
Hróðný mælti: "Þér fel eg á hendi Skarphéðinn að hefna bróður þíns og vænti
eg að þér muni vel fara þó að hann sé eigi skilgetinn og þú munir mest eftir
ganga."
Bergþóra mælti: "Undarlega er yður farið er þér vegið víg þau er yður rekur
lítið til en meltið slíkt og sjóðið fyrir yður svo að ekki verður af og mun
hér koma skjótt Höskuldur Hvítanesgoði og biðja yður sætta og munuð þér
veita honum það og er nú til að ráða ef þér viljið."
Skarphéðinn mælti: "Eggjar móðir vor oss nú lögeggjan."
Síðan hljópu þeir út allir. Hróðný gekk með Njáli og var þar um nóttina.
99. kafli
Nú er að segja frá þeim Skarphéðni að þeir stefna upp til Rangár.
Skarphéðinn mælti: "Stöndum vér nú og hlýðum til."
Þeir gerðu svo.
Síðan mælti hann: "Förum vér nú hljótt því að eg heyri mannamál upp með
ánni. Eða hvort viljið þið heldur eiga við Lýting einn eða við bræður hans
báða?"
Þeir kváðust heldur vilja eiga við Lýting einn.
"Í honum er þó veiðurin meiri," segir Skarphéðinn, "og þykir mér illa ef
undan ber en eg treysti mér best um að eigi dragi undan."
"Til skulum við svo stefna," segir Helgi, "ef við komumst í færi að eigi
reki undan."
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa