"Vera má að svo sé," segir Runólfur, "en eg hefi hina skilning að engi sé
þeirra maki síð er Gunnar að Hlíðarenda lést og er það líkara að hér dragi
öðrum hvorum til bana."
Þráinn kveðst ekki það mundu hræðast.
Þá fór Þráinn upp í Mörk og var þar tvær nætur. Síðan reið hann ofan í Dal
og var hann hvartveggja út leystur með sæmilegum gjöfum.
Markarfljót féll í meðal höfuðísa og voru á smár spengur hér og hvar. Þráinn
sagði að hann ætlaði heim að ríða um kveldið. Runólfur mælti að hann skyldi
eigi heim ríða, sagði það varlegra vera að fara eigi sem hann hefði sagt.
Þráinn svarar: "Hræðsla er það og vil eg það eigi."
Göngukonur þær er þeir Þráinn reiddu yfir fljótið komu til Bergþórshvols og
spurði Bergþóra hvaðan þær væru en þær sögðust vera austan undan
Eyjafjöllum.
"Hver reiddi yður yfir Markarfljót?" segir Bergþóra.
"Þeir er mestir oflátar voru," segja þær.
"Hverjir voru þeir?" segir Bergþóra.
"Þráinn Sigfússon," sögðu þær, "og fylgdarmenn hans en það þótti oss að er
þeir voru svo fjölorðir og illorðir hingað til bónda þíns og sona hans."
Bergþóra mælti: "Margir kjósa eigi orð á sig."
Síðan fóru þær í braut og gaf Bergþóra þeim gýligjafar og spurði þær hvenær
Þráinn mundi heim koma. Þær sögðu að hann mundi vera heiman fjórar nætur eða
fimm. Síðan sagði Bergþóra sonum sínum og Kára mági sínum og töluðu þau
lengi leynilega.
En þann morgun hinn sama er þeir Þráinn riðu austan þá vaknaði Njáll snemma
og heyrði að öx Skarphéðins kom við þili. Stendur þá Njáll upp og gengur út.
Hann sér að synir hans eru með vopnum allir og svo Kári mágur hans.
Skarphéðinn var fremstur. Hann var í blám stakki og hafði törguskjöld og öxi
sína reidda um öxl. Næst honum gekk Kári. Hann hafði silkitreyju og hjálm
gylltan, skjöld og var dreginn á leó. Næst honum gekk Helgi. Hann hafði
rauðan kyrtil og hjálm og rauðan skjöld og markaður á hjörtur. Allir voru
þeir í litklæðum.