Synir Njáls ræddu nú um við Kára að hann mundi fara með þeim til Grjótár. Og
það gerði hann og kvað það vel að þeir heyrðu svör Þráins. Bjuggust þeir þá
fjórir Njálssynir og Kári hinn fimmti. Þeir fara til Grjótár. Þar var
anddyri breitt og máttu margir menn standa jafnfram.

Kona ein var úti og sá ferð þeirra og segir Þráni. Hann bað menn ganga í
anddyrið og taka vopn sín. Þeir gerðu svo. Stóð Þráinn í miðjum dyrum en
þeir stóðu til sinnar handar hvor Víga-Hrappur og Grani Gunnarsson, þar næst
Gunnar Lambason, þá Loðinn og Tjörvi, þá Lambi Sigurðarson, þá hver að hendi
því að karlar voru allir heima.

Þeir Skarphéðinn ganga að neðan og gekk hann fyrstur, þá Kári, þá Höskuldur,
þá Grímur, þá Helgi. En er þeir koma að dyrunum féllust þeim allar kveðjur
er fyrir voru.

Þá mælti Skarphéðinn: "Allir séum vér velkomnir."

Hallgerður stóð í anddyrinu og hafði talað hljótt við Hrapp. Hún mælti: "Það
mun engi mæla sá er fyrir er að þér séuð velkomnir."

Skarphéðinn mælti: "Ekki munu mega orð þín því að þú ert annaðhvort
hornkerling eða púta."

"Goldin skulu þér þessi orð áður þú ferð heim," segir Hallgerður.

Helgi mælti: "Þig er eg kominn að finna Þráinn ef þú vilt gera mér sæmd
nokkura fyrir hrakningar þær er eg hlaut í Noregi fyrir þínar sakir."

Þráinn mælti: "Aldrei vissi eg að þið bræður munduð gera drengskap ykkarn
til fjár eða hversu lengi skal fjárbón sjá yfir standa?"

"Það munu margir mæla," segir Helgi, "að þú ættir að bjóða sæmdina þar sem
líf þitt lá við."

Þá mælti Hrappur: "Þar gerði nú gæfumuninn er sá hlaut skellinn er skyldi og
dró yður undir hrakningina en oss undan."

"Lítil var það gæfa," segir Helgi "að bregða trúnaði sínum við jarl en taka
þig við."

"Þykist þú eigi að mér eiga bótina?" segir Hrappur. "Eg mun bæta þér því sem
mér þykir maklegt."