Posted on Site - to avoid problem of Yahoo interference
Kveðja
Patricia

"Þá segi eg þér," sagði Þórgunna, "að eg fer eigi ein saman og mun eg
vera með barni og segi eg það af þínum völdum. Þess get eg og að eg
muni svein fæða þá er þar kemur til. En þóttú viljir öngvan gaum að
gefa þá mun eg upp fæða sveininn og þér senda til Grænlands þegar
fara má með öðrum mönnum. En eg get að þér verði að þvílíkum nytjum
sonareignin við mér sem nú verður skilnaður okkar til. En koma ætla
eg mér til Grænlands áður en lýkur."

Hann gaf henni fingurgull og möttul grænlenskan og tannbelti. Þessi
sveinn kom til Grænlands og nefndist Þorgils. Leifur tók við honum að
faðerni. Og er það sumra manna sögn að þessi Þorgils kæmi til Íslands
fyrir Fróðárundur um sumarið. En sjá Þorgils var síðan á Grænlandi og
þótti enn eigi kynjalaust um verða áður lauk.

Þeir Leifur sigldu í brott úr Suðureyjum og tóku Noreg um haustið.
Réðst Leifur til hirðar Ólafs konungs Tryggvasonar og lagði konungur
á hann góða virðing og þóttist sjá að Leifur mundi vera vel menntur
maður.

Eitt sinn kom konungur að máli við Leif og spyr hann: "Ætlar þú til
Grænlands í sumar að sigla?"

Leifur svarar: "Það ætla eg ef sá er yðvar vilji."

Konungur svarar: "Eg get að svo muni vel vera. Skaltu fara með
erindum mínum að boða kristni á Grænlandi."

Leifur kvað hann ráða mundu en kveðst hyggja að það erindi mundi
torflutt á Grænlandi en konungur kveðst eigi þann mann sjá er betur
væri til þess fallinn en hann "og muntu giftu til bera."

"Það mun því að eins," kvað Leifur, "að eg njóti yðvar við."

Leifur lét í haf þegar hann var búinn. Leif velkti lengi úti og hitti
hann á lönd þau er hann vissi áður öngva von í. Voru þar hveitiakrar
sjálfsánir og vínviður vaxinn. Þar voru og þau tré er mösur hétu og
höfðu þeir af öllu þessu nokkur merki, sum tré svo mikil að í hús
voru lögð.

Leifur fann menn á skipflaki og flutti heim með sér og fékk öllum
vist um veturinn. Sýndi hann svo mikla stórmennsku og gæsku af sér.
Hann kom kristni á landið og hann bjargaði mönnunum. Var hann
kallaður Leifur hinn heppni.

Leifur tók land í Eiríksfirði og fer heim í Brattahlíð. Tóku menn vel
við honum. Hann boðaði brátt kristni um landið og almennilega trú og
sýndi mönnum orðsendingar Ólafs konungs Tryggvasonar og sagði hversu
mörg ágæti og mikil dýrð þessum sið fylgdi