This has already been sent in over five hours ago - Yahoo seems to
have "lost" it. IMO - it may turn up later - but better post again
and be sure
Kveðja
Patricia
En er hún kom inn þótti öllum mönnum skylt að velja henni sæmilegar
kveðjur en hún tók því eftir sem henni voru menn skapfelldir til. Tók
Þorkell bóndi í hönd vísindakonunni og leiddi hana til þess sætis er
henni var búið. Þorkell bað hana þá renna þar augum yfir hjörð og hjú
og híbýli. Hún var fámálug um allt.
Borð voru upp tekin um kveldið og er frá því að segja að spákonunni
var matbúið. Henni var ger grautur af kiðjamjólk en til matar henni
voru búin hjörtu úr alls konar kvikindum þeim sem þar voru til. Hún
hafði messingarspón og hníf tannskeftan, tvíhólkaðan af eiri, og var
af brotinn oddurinn.
En er borð voru upp tekin gengur Þorkell bóndi fyrir Þorbjörgu og
spyr hversu henni virðist þar híbýli eða hættir manna eða hversu
fljótlega hann mun þess vís verða er hann hefir spurt eftir og menn
vildu vita. Hún kveðst það ekki mundu upp bera fyrr en um morguninn
þá er hún hefði sofið þar um nóttina.
En að áliðnum degi var henni veittur sá umbúningur sem hún skyldi til
að fremja seiðinn. Bað hún fá sér konur þær sem kynnu fræði það er
þyrfti til seiðinn að fremja og Varðlokur heita. En þær konur fundust
eigi. Þá var að leitað um bæinn ef nokkur kynni.
Þá svarar Guðríður: "Hvorki er eg fjölkunnig né vísindakona en þó
kenndi Halldís fóstra mín mér á Íslandi það fræði er hún kallaði
Varðlokur."
Þorbjörg svaraði: "Þá ertu fróðari en eg ætlaði."
Guðríður segir: "Þetta er þess konar fræði og atferli að eg ætla í
öngvum atbeina að vera því að eg er kona kristin."
Þorbjörg svarar: "Svo mætti verða að þú yrðir mönnum að liði hér um
en þú værir þá kona ekki að verri. En við Þorkel met eg að fá þá
hluti hér til er þarf."
Þorkell herðir nú að Guðríði en hún kveðst mundu gera sem hann vildi.
Slógu þá konur hring umhverfis en Þorbjörg sat uppi á seiðhjallinum.
Kvað Guðríður þá kvæðið svo fagurt og vel að engi þóttist fyrr heyrt
hafa með fegri raust kveðið sá er þar var.
Spákona þakkar henni kvæðið. Hún hafði margar náttúrur hingað að sótt
og þótti fagurt að heyra það er kveðið var "er áður vildu frá oss
snúast og oss öngva hlýðni veita. En mér eru nú margir þeir hlutir
auðsýnir er áður var bæði eg og aðrir duldir.