43. kafli

En er sendimaður kom til þings að segja Gunnari vígið þá mælti Gunnar:
"Þetta er illa orðið og eigi kæmu þau tíðindi til eyrna mér að mér þættu
verri. En þó skulum vér nú fara þegar að finna Njál og væntir mig að honum
fari enn vel þó að hann sé mjög að þreyttur."

Gengu þeir þá á fund Njáls og kölluðu hann til máls við sig. Hann gekk þegar
til fundar við Gunnar. Þeir töluðu og var ekki manna við fyrst nema
Kolskeggur.

"Hörð tíðindi hefi eg að segja þér," segir Gunnar, "víg Þórðar
leysingjasonar. Vil eg bjóða þér sjálfdæmi fyrir vígið."

Njáll þagði nokkurt skeið og mælti síðan: "Vel er slíkt boðið," segir hann,
"og mun eg það taka. En þó er eigi örvænt að eg hafi ámæli af konu minni eða
sonum mínum fyrir þetta því að þeim mun mjög mislíka. En þó mun eg á það
hætta því að eg veit að eg á við dreng um. Vil eg og eigi að af mér standi
afbrigð okkarrar vináttu."

"Vilt þú nokkuð sonu þína við láta vera?" segir Gunnar.

"Ekki," segir Njáll, "því að eigi munu þeir rjúfa þá sátt er eg geri. En ef
þeir eru við staddir þá munu þeir ekki saman draga."

"Svo mun vera," segir Gunnar. "Sjá þú einn fyrir."

Þeir tókust þá í hendur og sættust vel og skjótt.

Þá mælti Njáll: "Tvö hundruð silfurs geri eg og mun þér mikið þykja."

"Eigi þykir mér þetta of mikið," segir Gunnar og gekk heim til búðar sinnar.

Synir Njáls komu heim til búðar og spurði Skarphéðinn hvaðan fé það hið
mikla og hið góða kæmi er faðir hans hélt á.

Njáll mælti: "Eg segi yður víg Þórðar fóstra yðvars og höfum við Gunnar nú
sæst á málið og hefir hann tvennum manngjöldum bætt hann."

"Hverjir hafa vegið hann?" segir Skarphéðinn.

"Sigmundur og Skjöldur en Þráinn var þó nær staddur," segir Njáll.

"Mikils þótti þeim við þurfa," segir Skarphéðinn, "en hvar skal þá komið er
vér skulum handa hefja?"

"Skammt mun til þess," segir Njáll, "og munt þú þá eigi þess lattur en þó
þykir mér mikið undir að þér rjúfið eigi þessa sætt."

"Svo munum vér þá gera," segir Skarphéðinn, "en ef til verður nokkuð með oss
þá munum vér minnast á hinn forna fjandskap."

"Engis mun eg þá um beiða," segir Njáll.