I'm posting this early as I'll be away from the computer tomorrow morning.
Grace
Hann mun spyrja hvort þér sé nokkuð af kunnigt "hversu fór með okkur?"
"Kunnigt er mér," skalt þú segja, "að hann tók af þér konuna en þú hafðir
ekki."
Þá mun Hrútur svara: "Þótti þér ekki á verða fyrir honum er hann náði eigi
fénu en bjó þó til málið?"
"Hér má eg þér vel svara," skalt þú segja, "þú skoraðir honum til einvígis
en hann var maður gamall og réðu vinir hans honum að hann berðist eigi við
þig og drap svo niður málinu."
"Mælti eg það," mun Hrútur segja, "og þótti það heimskum mönnum sem lög væri
en málið mátti þó upp taka á öðru þingi ef hann hefði þrek til haft."
"Veit eg það," skalt þú segja.
Hann mun þá spyrja þig: "Kannt þú nokkuð í lögum?"
"Kunna þótti eg norður þar," skalt þú segja, "en þó munt þú segja mér verða
hversu málið skal upp taka."
Hrútur mun mæla: "Að hverju máli vilt þú spyrja?"
"Að því," skalt þú segja, "er mig skiptir engu, hversu upp skal taka
fjárheimtuna Unnar."
"Stefna skal málinu svo að eg heyri á eða að lögheimili mínu," mun Hrútur
segja.
"Stefn þú nú þá," skalt þú segja, "en eg mun í annað sinn."
Þá mun Hrútur stefna og skalt þú að því vandlega hyggja hver atkvæði hann
hefir. Þá mun Hrútur mæla að þú skulir stefna. Þú skalt þá stefna og skal
rangt svo að eigi sé meir en annað hvert orð rétt. Þá mun Hrútur hlæja og
mun hann þá ekki gruna en mæla þó að fátt sé rétt í. Þú skalt kenna
förunautum þínum að þeir hafi glapið þig. Þá skalt þú biðja Hrút að hann
mæli fyrir þér og að hann leyfi að þú stefnir í annað sinn og mælir eftir
honum. Hann mun leyfa þér og stefna sjálfur málinu. Þú skalt þegar stefna
eftir og mæla þá rétt og spyrja Hrút hvort rétt sé stefnt. Hann mun segja
þér að eigi megi það ónýta.
Þá skalt þú mæla hátt svo að förunautar þínir heyri: "Stefni eg handseldri
sök Unnar Marðardóttur."