"Þora mun eg," segir hann, "að heimta fé þetta en eigi veit eg hversu upp
skal taka málið."

Hún svaraði: "Far þú og finn Njál að Bergþórshvoli. Hann mun ráðin kunna til
að leggja. Er hann og vinur þinn mikill."

"Von er mér að hann ráði mér heilt sem öllum öðrum," segir hann.

Svo lauk með þeim að Gunnar tók við málinu en fékk henni fé til bús síns sem
hún þurfti og fór hún heim síðan.

Gunnar ríður nú að finna Njál og tók hann við honum vel og gengu þegar á
tal.

Gunnar mælti: "Heilræði er eg kominn að sækja að þér."

Njáll svaraði: "Margir eru þess vinir mínir maklegir að eg leggi til það sem
heilt er en ætla eg að eg leggi mesta stund á við þig."

Gunnar mælti: "Eg vil gera þér kunnigt að eg hefi tekið fjárheimtu af Unni á
Hrút."

"Það er mikið vandamál," segir Njáll, "og mikil hætta hversu fer. En þó mun
eg til leggja með þér það er mér þykir vænst og mun það endast ef þú bregður
hvergi af en líf þitt er í hættu ef þú gerir eigi svo."

"Hvergi skal eg af bregða," segir Gunnar.

Þá þagði Njáll nokkura stund og mælti síðan: "Hugsað hefi eg málið og mun
það duga."


22. kafli

"Nú skalt þú ríða heiman við hinn þriðja mann. Skalt þú hafa voskufl ystan
klæða og undir söluvoðarkyrtil mórendan. Þar skalt þú hafa undir hin góðu
klæði þín og taparöxi í hendi. Tvo hesta skal hafa hver yðvar, aðra feita en
aðra magra. Þú skalt hafa héðan smíði. Þér skuluð ríða þegar á morgun og er
þér komið yfir Hvítá vestur þá skalt þú láta slota hatt þinn mjög. Þá mun
eftir spurt hver sá sé hinn mikli maður. Förunautar þínir skulu segja að þar
sé Kaupa-Héðinn hinn mikli, eyfirskur maður, og fari með smíði. Hann er
maður skapillur og margmæltur, þykist einn vita allt. Hann rekur aftur kaup
sín oftlega og flýgur á menn þegar er eigi er svo gert sem hann vill. Þú
skalt ríða vestur til Borgarfjarðar og láta þá falt hvarvetna smíðið og reka
aftur kaupin mjög. Þá mun sá orðrómur á leggjast að Kaupa-Héðinn sé manna
verstur viðfangs og síst sé logið frá honum.