Haraldur gráfeldur réð fyrir Noregi. Hann var sonur Eiríks blóðöxar
Haraldssonar hins hárfagra. Gunnhildur hét móðir hans og var dóttir Össurar
tota. Þau höfðu aðsetur austur í Konungahellu.
Nú spurðist skipkoman austur þangað til Víkurinnar. Og þegar er þetta
fréttir Gunnhildur spurði hún eftir hvað íslenskra manna væri á skipi. Henni
var sagt að Hrútur hét maður og var bróðursonur Össurar.
Gunnhildur mælti: "Eg veit gjörla. Hann mun heimta erfð sína en sá maður
hefir að varðveita er Sóti heitir."
Síðan kallar hún á einn herbergissvein sinn er Ögmundur hét: "Eg vil senda
þig norður í Víkina á fund Össurar og Hrúts og seg að eg býð þeim báðum til
mín í vetur og eg vil vera vinur þeirra. Og ef Hrútur fer mínum ráðum fram
þá skal eg sjá um fémál hans og um það annað er hann tekur að henda. Eg skal
og koma honum fram við konunginn."
Síðan fór Ögmundur og kom á fund þeirra. En þegar er þeir vissu að hann var
sveinn Gunnhildar tóku þeir við honum sem best. Hann sagði þeim erindi sín
af hljóði.
Síðan töluðu þeir ráðagerðir sínar frændur leynilega og ræddi Össur við
Hrút: "Svo líst mér frændi sem nú munum við hafa gert ráð okkað því að eg
kann skapi Gunnhildar. Jafnskjótt sem við viljum eigi fara til hennar mun
hún reka okkur úr landi en taka fé okkað allt með ráni. En ef við förum til
hennar þá mun hún gera okkur sæmd slíka sem hún hefir heitið."
Ögmundur fór heim. Og er hann fann Gunnhildi sagði hann henni erindislok sín
og það að þeir mundu koma.
Gunnhildur mælti: "Slíks var von því að Hrútur er vitur maður og vel að sér.
En nú haf þú njósn af nær er þeir koma til bæjarins og seg mér."