Í lautinni, þar sem lyngið grær
og lindin er hljóð og angurvær,
má glataða gleði finna.
Friðland á sá, sem flugi nær
til fjallahlíðanna sinna.

Ef ég að borginni baki sný,
þá brosir við augunum veröld ný,
full af ódáinsangan.
Þar hefjast bláfjöllin hátt við ský
með hádegissól um vangann.

Kletturinn er mín konungshöll,
kirkja mín tindur, þakinn mjöll,
helguð heilögum anda.
Þar vex og hækkar mín hugsun öll,
unz himnarnir opnir standa.

Hreinn er faðmur þinn, fjallablær.
Fagurt er þar, sem lyngið grær.
Þar get ég elskað alla.
Á tíma og eilífð töfrum slær
af tign hinna bláu fjalla.

Davíð Stefánsson.