FORNÖFN - Björn Guðfinnsson

From: konrad_oddsson
Message: 2172
Date: 2002-09-20

19. Fornöfn eru fallorð sem hvorki bæta við sig greini, stigbreytast
né eru tölutáknanir.

Mörg fornafnanna standa í stað persónu eða ákveðinna orða, t.d.
nafnorða, til þess að forðast endurtekningu. Dæmi: Hvar er Jón? Hann
(Jón) er í kaupstaðnum. Sérðu húsið? Það (húsið) er rautt. 'Hann'
og 'það' eru fornöfn, notuð hér til að komast hjá því að endurtaka
Jón og húsið í síðari setningunum.

Sum fornöfn standa með nafnorðum: Hesturinn minn. Húsið þitt. Sá
maður o.s.frv.

11. æf. Finnið fornöfnin í eftirfarandi verkefnum:

a) Ég var að lesa þegar þú komst. Hann gekk út. Við mættum honum.
Þið verðið að flýta ykkur. Þeir hittu mann sem ætlaði hingað. Þá
langaði til að heimsækja vini sína. Þetta er bókin mín. Er ykkur
kalt? Þau verma sig við eldinn. Hann er vinur okkar og vonandi ykkar
líka. Margur hyggur mig sig. Barnið svaf illa, draumar þess hafa
vakið það.

b) Hann er sá sem allir dá. Fylgdu mér til systur þinnar. Hvor
þeirra braut þessa rúðu? Hvaða bók var það sem kennarinn var að sýna
þeim í dag? Önnur þeirra er ljós á hár, hin jarphærð. Slíkt er ekki
einleikið. Allir lögðu af stað en fáeinir heltust úr lestinni. Sá
enginn til ykkar? Hver er kominn úti? Þá fýsir ekki að hitta þig.

c) Oss þykir líklegt að yður geðjist vel að sögunni. Bróður mínum
þykir vænt um bókina sína. Hvorugur sagði neitt. Sumir stóðu, aðrir
sátu. Þau spurðu einskis. Er nokkuð að frétta? Sástu nokkurt skip
við bryggjuna? Dag einn um vorið kom sjálfur biskupinn heim í kotið.
Einhverra hluta vegna höfðu báðir farið að heiman þetta kvöld og var
hvorugan hægt að hitta.

Previous message: 2171
Next message: 2173

Contemporaneous posts     all posts