Þeir kváðust engi segja kunna önnur en þau að sá maður var einn kominn vestan úr Breiðafirði að svara kunni Tungu-Oddi "og var hans hljómur og rödd sem griðungur gelldi."
Hún kvað það engi tíðindi þótt honum væri svarað sem öðrum manni en kvað þó það hafa gerst að tíðindum að eigi væri líklegra til.
"Var þar og bardagi," sögðu þeir, "og féllu fimm menn alls en margir urðu sárir."
En áður gátu þeir þess að engu.
Nú líður þingið og verður þar eigi til tíðinda. En er þeir mágar koma heim vestur skipta þeir bústöðum. Fer Gunnar í Örnólfsdal en Hersteinn tekur Gunnarsstaði. Eftir þetta lætur Gunnar færa til sín vestan við þann allan sem Örn austmaður hafði átt og flytja heim í Örnólfsdal. Tekur hann til síðan og húsar upp bæinn í annað sinn því að Gunnar var allra manna hagastur. Hann var og um allt atgervismaður og manna best vígur og hinn vaskasti í öllu.
14. kafli
Nú líða stundir fram allt til þess að menn ríða til þings. Er nú mikill viðbúnaður í héruðunum. Ríða nú hvorirtveggju ákafa fjölmennir.
Og er þeir Þórður gellir koma á Gunnarsstaði er Hersteinn sjúkur og má eigi fara til þings. Selur hann nú öðrum í hendur sakirnar. Eftir voru hjá honum þrír tigir manna.
Nú ríður Þórður til þings. Hann safnar að sér vinum sínum og frændum og kemur snemma til þings. En þingið var þá undir Ármannsfelli. Og svo sem flokkar koma hefir Þórður liðsdrátt mikinn.
Nú er sén ferð Tungu-Odds. Ríður Þórður þá í mót honum og vill eigi að hann nái þinghelginni. Oddur ríður með þremur hundruðum manna. Þeir Þórður verja þingið og slær þá þegar í bardaga. Tekst brátt mannfall en allmargir urðu sárir. Þar féllu sex menn af Oddi því Þórður var miklu fjölmennari.