Og skildust við svo búið.
Ríður Þórir á braut og koma á Breiðabólstað og heilsar Oddur honum vel og spyr tíðinda.
"Ekki hefi eg nýlegra frétt en ránið."
"Hvað ráni var það?" sagði Oddur.
Þórir svarar: "Blund-Ketill tók hey mín öll svo að eg er nú með öllu óbirgur. Vildi eg gjarna hafa þína ásjá en þetta mál kemur og til þín, þar sem þú ert forráðsmaður héraðsins, að rétta það sem rangt er gert og máttu það á minnast að hann gerðist þinn fjandmaður."
Oddur spurði: "Er svo Helgi?"
Hann sagði að Þórir affærði stórmjög, greinir nú allt hversu fór. Oddur svarar: "Eigi vil eg mér af skipta. Mundi eg svo hafa gert ef eg þyrfti."
Þórir svarar: "Satt er það er mælt er, að spyrja er best til válegra þegna og án er illt um gengi nema heiman hafi."
Ríður Þórir í brott við svo búið og Helgi með honum og fer heim og unir illa við.
7. kafli
Þorvaldur son Tungu-Odds hafði út komið um sumarið fyrir norðan land og þar vistaðist hann um veturinn. Hann fór norðan er leið að sumri á fund föður síns og gisti um nótt í Norðurtungu í góðum beina.
Sá maður var þar fyrir á gistingu er Víðfari hét. Hann var reikanarmaður. Hljóp hann á milli landshorna. Hann var frændi Þóris náinn og áþekkur honum í skapsmunum.
Þetta sama kveld tekur Víðfari föt sín og stökkur á brott og léttir eigi fyrr en hann kemur til Þóris.
Hann tekur við honum báðum höndum: "Veit eg og að nokkuð gott mun mér leiða af þinni komu."
Hann svarar: "Gerast mætti það því að nú er Þorvaldur Oddsson kominn í Norðurtungu og er þar nú á gistingu."
Þórir svarar: "Það vissi eg að sjá að mér mundi nokkuð gott að höndum koma því að mér varð allgott við er eg sá þig."