51. kafli

Sumar var heldur óþerrisamt en um haustið komu þerrar góðir. Var þá svo komið heyverkum að Fróðá að taða öll var slegin en fullþurr nær helmingurinn. Kom þá góður þerridagur og var veður kyrrt og þunnt svo að hvergi sá ský á himni.

Þóroddur bóndi stóð upp snemma um morguninn og skipaði til verks. Tóku þá sumir til ekju en sumir hlóðu heyinu en bóndi skipaði konum til að þurrka heyið og var skipt verkum með þeim og var Þórgunnu ætlað nautsfóður til atverknaðar. Gekk mikið verk fram um daginn.

En er mjög leið að nóni kom skýflóki svartur á himininn norður yfir Skor og dró skjótt yfir himin og þangað beint yfir bæinn. Þóttust menn sjá að regn mundi í skýinu. Þóroddur bað menn raka upp heyið en Þórgunna rifjaði þá sem óðast sitt hey. Tók hún eigi að raka upp þótt það væri mælt.

Skýflókann dró skjótt yfir. Og er hann kom yfir bæinn að Fróðá fylgdi honum myrkur svo mikið að menn sáu eigi úr túninu á brott og varla handa sinna skil. Úr skýinu kom svo mikið regn að heyið varð allt vott það er flatt lá. Flókann dró og skjótt af og lýsti veðrið. Sáu menn að blóði hafði rignt í skúrinni.

Um kveldið gerði þerri góðan og þornaði blóðið skjótt á heyinu öllu öðru en því er Þórgunna þurrkaði. Það þornaði eigi og aldrei þornaði hrífan er hún hafði haldið á.

Þóroddur spurði hvað Þórgunna ætlar að undur þetta muni benda. Hún kvaðst eigi það vita "en það þykir mér líklegast," segir hún, "að þetta muni furða nokkurs þess manns er hér er."

Þórgunna gekk heim of kveldið og til rúms síns og lagði af sér klæðin þau hin blóðgu. Síðan lagðist hún niður í rekkjuna og andvarpaði mjög. Fundu menn að hún hafði sótt tekið.

Skúr þessi hafði hvergi víðar komið en að Fróðá.