Nú græðir Þórir svo mikið að hann kaupir sér land er að Vatni heitir upp frá Norðurtungu. Og fá vetur hafði hann búið áður hann gerðist svo mikill auðmaður að hann átti undir vel hverjum manni stórfé. En þó að honum græddist fé mikið þá héldust þó óvinsældir hans því að varla var til óþokkasælli maður en Hænsna-Þórir var.


2. kafli

Einn dag gerir Þórir heiman ferð sína og ríður í Norðurtungu og hitti Arngrím goða og bauð honum barnfóstur: "Vil eg taka við Helga syni þínum og geyma sem eg kann en eg vil hafa vináttu þína í mót og fylgi til þess að eg nái réttu af mönnum."

Arngrímur svarar: "Svo líst mér sem lítill höfuðburður muni mér að þessu barnfóstri."

Þórir svarar: "Eg vil gefa sveininum hálft fé mitt heldur en eg nái eigi barnfóstrinu en þú skalt rétta hluta minn og vera skyldur til við hvern sem eg á um."

Arngrímur svarar: "Það ætla eg mála sannast að neita eigi því er svo er vel boðið."

Fór þá Helgi heim með Þóri og heitir þar nú síðan bærinn að Helgavatni. Arngrímur veitti Þóri umsjá og þykir þegar ódælla við hann og nær hann nú réttu máli af hverjum manni. Græðist honum nú stórmikið fé og gerist hinn mesti auðmaður. Hélst honum enn óvinsældin.

Það var eitt sumar að skip kom af hafi í Borgarfjörð og lögðu þeir eigi inn í ósinn en lögðu utarlega á höfnina. Örn hét stýrimaður. Hann var vinsæll maður og hinn besti kaupdrengur.

Oddur frétti skipkomuna. Hann var vanur í fyrra lagi í kaupstefnur að koma og leggja lag á varning manna því að hann hafði héraðsstjórn. Þótti engum dælt fyrr að kaupa en vissi hvað hann vildi að gera.

Nú hittir hann kaupmenn og fréttir eftir hversu þeir ætla sína ferð eða hve skjótar sölur þeir vildu hafa og sagði þann vanda að hann legði lag á varning manna.