Stóð hún þá upp af pallinum og tók hægindin undan sér. Var þar hlemmur undir
og holur innan pallurinn. Lét hún Odd þar í koma og bjó um sem áður og
settist á ofan og kvað sér vera heldur kynlegt.
En er þeir koma í stofu þá varð eigi að kveðjum með þeim. Geirríður varp af
sér skikkjunni og gekk að Kötlu og tók selbelg er hún hafði haft með sér og
færði hann á höfuð Kötlu. Síðan bundu förunautar þeirra að fyrir neðan. Þá
bað Geirríður brjóta upp pallinn. Var Oddur þar fundinn og síðan bundinn.
Eftir það voru þau færð inn til Búlandshöfða og var Oddur þar hengdur.
Og er hann spornar gálgann mælti Arnkell til hans: "Illt hlýtur þú af þinni
móður. Kann og vera að þú eigir illa móður."
Katla mælti: "Vera má víst að hann eigi eigi góða móður en eigi hlýtur hann
af því illt af mér að eg vildi það. En það væri vilji minn að þér hlytuð
allir illt af mér. Vænti eg og að það mun svo vera. Skal nú og eigi leyna
yður því að eg hefi valdið meini Gunnlaugs Þorbjarnarsonar er þessi vandræði
hafa öll af hlotist. En þú Arnkell," segir hún, "mátt eigi af þinni móður
illt hljóta er þú átt enga á lífi en um það vildi eg að mín ákvæði stæðust
að þú hlytir því verra af föður þínum en Oddur hefir af mér hlotið sem þú
hefir meira í hættu en hann. Vænti eg og að það sé mælt áður lýkur að þú
eigir illan föður."
Eftir það börðu þeir Kötlu grjóti í hel þar undir höfðanum. Síðan fóru þeir
í Mávahlíð og voru þar um nóttina en riðu heim eftir um daginn. Spurðust nú
þessi tíðindi öll jafnsaman og var engum harmsaga í. Líður nú svo veturinn.

21. kafli
Eftir um vorið var það einn dag að Arnkell kallar á tal við sig Þórarin
frænda sinn, Vermund og Álfgeir og spurði hver liðveisla þeim þætti
vinveittust við sig, hvort þeir færu til þings "og kostum að því allra vina
vorra," segir hann. "Kann vera að þá sé annaðhvort að menn sættist og mun
yður það verða féskylt að bæta þá menn alla er þar létust eða fyrir sárum
urðu.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.