Þórarinn hljóp að Þorbirni og hjó með sverði í höfuðið og klauf ofan í
jaxla. Eftir það sótti Þórir Arnarson að Þórarni við þriðja mann. Hallsteinn
sótti Álfgeir við annan mann. Oddur Kötluson sótti félaga Álfgeirs við annan
mann. Þrír förunautar Þorbjarnar sóttu tvo menn Þórarins og var bardagi
þessi sóttur með miklu kappi.
Þeirra skipti fóru svo að Þórarinn hjó fót af Þóri þar er kálfi var
digrastur en drap báða förunauta hans. Hallsteinn féll fyrir Álfgeiri sár
til ólífis en er Þórarinn var laus rann Oddur Kötluson við þriðja mann. Hann
var eigi sár því að eigi festi vopn á kyrtli hans. Allir lágu eftir aðrir
förunautar þeirra. Látnir voru og báðir húskarlar Þórarins.
Þeir Þórarinn tóku hesta þeirra Þorbjarnar og ríða þeim heim og sáu þeir þá
hvar Nagli hljóp hið efra um hlíðina. Og er þeir komu í túnið sáu þeir að
Nagli var kominn fram um garðinn og stefndi inn til Búlandshöfða. Þar fann
hann þræla Þórarins tvo er ráku sauði úr höfðanum. Hann segir þeim fundinn
og liðsmun hver var. Kallaðist hann víst vita að Þórarinn og hans menn voru
látnir og í því sáu þeir að menn riðu heiman eftir vellinum. Þá tóku þeir
Þórarinn að hleypa því að þeir vildu hjálpa Nagla að hann hlypi eigi á sjó
eða fyrir björg.
Og er þeir Nagli sjá að mennirnir riðu æsilega hugðu þeir að Þorbjörn mundi
þar fara. Tóku þeir nú rás af nýju allir inn til höfðans og runnu þar til er
þeir koma þar sem nú heitir Þrælaskriða. Þar fengu þeir Þórarinn tekið Nagla
því að hann var nálega sprunginn af mæði en þrælarnir hljópu þar fyrir ofan
og fram af höfðanum og týndust sem von var því að höfðinn er svo hár að allt
hefir bana það sem þar fer ofan.
Síðan fóru þeir Þórarinn heim og var Geirríður í dyrum og spyr þá hve farist
hefir

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.