Þorsteinn þorskabítur átti son er kallaður var Börkur digri. En sumar það er
Þorsteinn var hálfþrítugur fæddi Þóra sveinbarn og var Grímur nefndur er
vatni var ausinn. Þann svein gaf Þorsteinn Þór og kvað vera skyldu hofgoða
og kallar hann Þorgrím. Það sama haust fór Þorsteinn út í Höskuldsey til
fangs.
Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan
Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda
stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann
næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og
förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum.
Þenna fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið. Hún lét sér
fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboðan stærri tíðinda.
Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að
Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill
skaði.
Þóra hélt þar bú eftir og ræðst sá maður til með henni er Hallvarður hét.
Þau áttu son er Már hét.
12. kafli
Synir Þorsteins þorskabíts uxu þar upp heima með móður sinni og voru hinir
efnilegustu menn og var Þorgrímur fyrir þeim í öllu og var þegar hofgoði er
hann hafði aldur til.
Þorgrímur kvongaðist vestur í Dýrafjörð og fékk Þórdísar Súrsdóttur og réðst
hann þangað vestur til mága sinna, Gísla og Þorkels. Þorgrímur drap Véstein
Vésteinsson að haustboði í Haukadal. En annað haust eftir þá er Þorgrímur
var hálfþrítugur sem faðir hans þá drap Gísli mágur hans hann að haustboði á
Sæbóli. Nokkurum nóttum síðar fæddi Þórdís kona hans barn og var sá sveinn
kallaður Þorgrímur eftir föður sínum.
Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.