Þar sem Þór hafði á land komið, á tanganum nessins, lét hann hafa dóma alla
og setti þar héraðsþing. Þar var og svo mikill helgistaður að hann vildi með
engu móti láta saurga völlinn, hvorki í heiftarblóði og eigi skyldi þar
álfrek ganga og var haft til þess sker eitt er Dritsker var kallað.
Þórólfur gerðist rausnarmaður mikill í búi og hafði fjölmennt með sér því að
þá var gott matar að afla af eyjum og öðru sæfangi.

5. kafli
Nú skal segja frá Birni Ketilssyni flatnefs að hann sigldi vestur um haf þá
er þeir Þórólfur Mostrarskegg skildu sem fyrr segir. Hann hélt til
Suðureyja.
En er hann kom vestur um haf þá var andaður Ketill faðir hans en hann fann
þar Helga bróður sinn og systur sínar og buðu þau honum góða kosti með sér.
Björn varð þess vís að þau höfðu annan átrúnað og þótti honum það
lítilmannlegt er þau höfðu hafnað fornum sið, þeim er frændur þeirra höfðu
haft og nam hann þar eigi yndi og enga staðfestu vildi hann þar taka. Var
hann þó um veturinn með Auði systur sinni og Þorsteini syni hennar.
En er þau fundu að hann vildi eigi áhlýðast við frændur sína þá kölluðu þau
hann Björn hinn austræna og þótti þeim illa er hann vildi þar ekki
staðfestast.

6. kafli
Björn var tvo vetur í Suðureyjum áður hann bjó ferð sína til Íslands. Með
honum var í ferð Hallsteinn Þórólfsson. Þeir tóku land í Breiðafirði og nam
Björn land út frá Stafá, milli og Hraunsfjarðar, með ráði Þórólfs. Björn bjó
í Borgarholti í Bjarnarhöfn. Hann var hið mesta göfugmenni.
Hallsteini Þórólfssyni þótti lítilmannlegt að þiggja land að föður sínum og
fór hann vestur yfir Breiðafjörð og nam þar land og bjó á Hallsteinsnesi.

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.