Brá hann því jafnan undir fót sér. Urðu þá hvorirtveggju sárir,
Ósvífurssynir og Án, en Kjartan var þá enn ekki sár. Kjartan barðist svo
snart og hraustlega að þeir Ósvífurssynir hopuðu undan og sneru þá þar að
sem Án var. Þá féll Án og hafði hann þó barist um hríð svo að úti lágu
iðrin. Í þessi svipan hjó Kjartan fót af Guðlaugi fyrir ofan kné og var
honum sá áverki ærinn til bana. Þá sækja þeir Ósvífurssynir fjórir Kjartan
og varðist hann svo hraustlega að hvergi fór hann á hæl fyrir þeim.
Þá mælti Kjartan: "Bolli frændi, hví fórstu heiman ef þú vildir kyrr standa
hjá? Og er þér nú það vænst að veita öðrum hvorum og reyna nú hversu
Fótbítur dugi."
Bolli lét sem hann heyrði eigi.
Og er Óspakur sá að þeir mundu eigi bera af Kjartani þá eggjar hann Bolla á
alla vega, kvað hann eigi mundu vilja vita þá skömm eftir sér að hafa heitið
þeim vígsgangi og veita nú ekki "og var Kjartan oss þá þungur í skiptum er
vér höfðum eigi jafnstórt til gert. Og ef Kjartan skal nú undan rekast þá
mun þér Bolli svo sem oss skammt til afarkosta."
Þá brá Bolli Fótbít og snýr nú að Kjartani.
Þá mælti Kjartan til Bolla: "Víst ætlar þú nú frændi níðingsverk að gera en
miklu þykir mér betra að þiggja banorð af þér frændi en veita þér það."
Síðan kastaði Kjartan vopnum og vildi þá eigi verja sig en þó var hann lítt
sár en ákaflega vígmóður. Engi veitti Bolli svör máli Kjartans en þó veitti
hann honum banasár. Bolli settist þegar undir herðar honum og andaðist
Kjartan í knjám Bolla. Iðraðist Bolli þegar verksins og lýsti vígi á hendur
sér. Bolli sendi þá Ósvífurssonu til héraðs en hann var eftir og Þórarinn
hjá líkunum.