Þorkell mælti: "Þegi skjótt," segir hann. "Mun fóli þinn nokkurum manni líf
gefa ef bana verður auðið? Er það og satt að segja að eg spari hvoriga til
að þeir eigi nú svo illt saman sem þeim líkar. Sýnist mér það betra ráð að
við komum okkur þar að okkur sé við engu hætt en við megum sem gerst sjá
fundinn og höfum gaman af leik þeirra því að það ágæta allir að Kjartan sé
vígur hverjum manni betur. Væntir mig og að hann þurfi nú þess því að okkur
er það kunnigt að ærinn er liðsmunur."
Og varð svo að vera sem Þorkell vildi.
Þeir Kjartan ríða fram að Hafragili.
En í annan stað gruna þeir Ósvífurssynir hví Bolli mun sér hafa þar svo
staðar leitað er hann mátti vel sjá þá er menn riðu vestan. Þeir gera nú ráð
sitt og þótti sem Bolli mundi þeim eigi vera trúr, ganga að honum upp í
brekkuna og brugðu á glímu og á glens og tóku í fætur honum og drógu hann
ofan fyrir brekkuna.
En þá Kjartan bar brátt að er þeir riðu hart og er þeir komu suður yfir
gilið þá sáu þeir fyrirsátina og kenndu mennina. Kjartan spratt þegar af
baki og sneri í móti þeim Ósvífurssonum. Þar stóð steinn einn mikill. Þar
bað Kjartan þá við taka. En áður þeir mættust skaut Kjartan spjótinu og kom
í skjöld Þórólfs fyrir ofan mundriðann og bar að honum skjöldinn við.
Spjótið gekk í gegnum skjöldinn og handlegginn fyrir ofan olboga og tók þar
í sundur aflvöðvann. Lét Þórólfur þá lausan skjöldinn og var honum ónýt
höndin um daginn. Síðan brá Kjartan sverðinu og hafði eigi konungsnaut.
Þórhöllusynir runnu á Þórarin því að þeim var það hlutverk ætlað. Var sá
atgangur harður því að Þórarinn var rammur að afli. Þeir voru og vel knáir.
Mátti þar og varla í milli sjá hvorir þar mundu drjúgari verða. Þá sóttu
þeir Ósvífurssynir að Kjartani og Guðlaugur. Voru þeir sex en þeir Kjartan
og Án tveir. Án varðist vel og vildi æ ganga fram fyrir Kjartan. Bolli stóð
hjá með Fótbít. Kjartan hjó stórt en sverðið dugði illa.